Bryndís Sigurðardóttir, sölustjóri og kona, bendir á óvæginn veruleika sem horfir við konum í dag vegna ástandsins í leghálsskimunum. Hún krefst þess að yfirvöld biðji konur afsökunar og segir þeim að skammast sín. Þetta kemur fram í pistli sem hún birti hjá Vísi.
„Í síðustu viku dreymdi mig að ég hlypi allsnakin hér um sveitina og næstu sveitir og bankaði á hvers manns dyr en enginn kom til dyra. Nú veit ég hvernig skuli ráða þennan draum,“ segir Bryndís. Hún segir sögu sína ekki einsdæmi en stundum þurfi að persónugera umræðuna til að varpa ljósi á aðstæður.
Mikið hefur verið rætt um stöðu leghálsskimana á Íslandi eftir að slíkar skimanir voru færðar frá Krabbameinsfélaginu yfir til heilsugæslunnar. Bryndís sjálf hefur lent í því að greinast með frumubreytingar.
„Ég er fílhraust, stálhraust, og þess vegna kom það mér í opna skjöldu í ágúst 2020 að greinast með frumubreytingar og HPV smit; ég sem er ódauðleg og ekkert slæmt getur gerst hjá mér. Talsverður skellur skal ég segja ykkur. Hafði trassað í nokkur ár að mæta í skimun, þrátt fyrir skammir móður minnar sem hafði lagt mikla áherslu á að við dæturnar mættum í krabbameinsskimanir vegna talsverðrar sögu um krabbamein í fjölskyldunni.“
Bryndís átti að mæta aftur í rannsókn eftir sex mánuði svo hún fór aftur í skimun í janúar. Hún bjóst við að fá svar eftir 21 dag eins og tíðkaðist hjá Krabbameinsfélaginu.
„Þegar hins vegar voru liðnir 100 dagar fóru að renna á mig tvær grímur; liðnir voru átta mánuðir frá því að mér var tjáð að hugsanlega væri ég með lífshættulegan sjúkdóm, þetta er ekkert grín.“
Henni tókst með krókaleiðum að fá þau svör að ekki hefðu greinst frumubreytingar en áfram væri hún þó með HPV-veiruna og átti að koma aftur eftir ár.
Þarna var Bryndís þó farin að vantreysta nýju skipulagi kerfisins. Hún fór því aftur í skimun hjá kvensjúkdómalækni 12. maí og komast að því hann sæi engar upplýsingar um sýnið sem var tekið í janúar.
„Nokkrum dögum seinna berast til hans upplýsingar og hann gerir þau leiðu mistök að senda mér póst um að ekkert hafi greinst í sýninu 12. janúar og ég eigi að koma eftir 5 ár! Tveimur dögum seinna kemur bréf inn á island.is (121 dögum frá sýnatöku 12. janúar) um að sýnið mitt hafi verið rannsakað með tilliti til HPV og hafi reynst jákvætt og ég eigi að koma eftir eitt ár; ekkert um hvort rannsakaðar hafi verið frumubreytingar og þar af leiðandi engar upplýsingar um hvort greinst hafi frumubreytingar.
Á þessum tímapunkti var konan að missa kúlið og lái henni hver sem vill.“
Seinni sýnatakan sem hún fór í 12. maí var skilgreint sem ofskimun og verður því ekki rannsökuð. Samkvæmt landlækni í dag geti konur ekki pantað sér skimun að eigin ósk. Þessi ummæli þykja Bryndísi móðgandi og niðurlægjandi.
„Ég þori að fullyrða að konur fara ekki að taka upp á því storma í leghálsskimanir að óþörfu. Sýnið nú auðmýkt og viðurkennið að þetta verkefni hefur klúðrast „big tæm“ og hefur ekki þjónað okkur konum með fullnægjandi hætti. Kerfið er í rugli og ef konur treysta ekki niðurstöðum sýna í þessu ástandi, rannsakið aftur. Biðjið okkur afsökunar, ekki vaða í fjölmiðla með yfirlýsingar um að þetta sé í lagi. Mamma myndi orða það þannig að þið ættuð frekar að skammast ykkar.
Ps.
Ég hef óskað eftir að fá leghálssýnið mitt frá 12. maí afhent. Það verður hluti af listaverki sem heitir „Computer Says No“.“
Staða leghálsskimana hefur harðlega verið gagnrýnd seinustu misseri, allt frá flutningi slíkra skimana frá Krabbameinsfélaginu. Konum hefur reynst erfitt að fá svör um sýni sín og biðtími óbærilega langur. Frumrannsóknir á leghálssýnum eru nú aðeins framkvæmdar í Danmörku.
*Rétt er að taka fram að blaðamaður fór í leghálssýnatöku fyrir nokkrum mánuðum síðan hjá kvensjúkdómalækni en hefur enn ekki fengið neinar niðurstöður né heldur er sýnatakan skráð inn á Heilsuveru. Blaðamaður hefur farið í keiluskurð og nokkrar leghálsspeglanir eftir að greinast jákvæð fyrir HPV og með frumubreytingar. Í síðustu sýnatöku greindust enn breytingar en engu að síður næstum tveimur árum síðar hafði blaðamaður ekki verið boðaður ú skimun og þurfti að leita sjálfur til kvensjúkdómalæknis með áðurnefndum árangri.