Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga á Íslandi, hefur áhyggjur af því að stytting vinnuvikunnar geti bitnað á öryggi bæði fanga og fangavarða. Eftirleiðis starfa fangaverðir aðeins átta klukkustundir á dag í stað tólf tíma áður.
Á opinberum vaktavinnustöðum styttist vinnuvikan þann 1. maí og fékk vaktavinnufólk því sinn fyrsta launaseðil eftir breytingarnar nú um mánaðamótin. Yfirlýst markmið styttingar vinnuvikunnar var að auka auka stöðugleika í starfsmannahaldi hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og að draga úr yfirvinnu ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við almenning.
Guðmundur segir þetta koma misjafnlega við fangaverði. Hann birti grein á vef Fréttablaðsins á mánudag þar sem hann vakti athygli á stöðunni. „Margir fangaverðir hafa komið að máli við mig og úr öllum fangelsunum og er óhætt að segja að þetta hefur valdið ólgu,“ segir í greininni. „Að mati þeirra fangavarða sem komið hafa að máli við mig mun ekki verða hægt að tryggja öryggi fanga og fangavarða,“ skrifar hann.
„Ekkert hefur verið fjallað um þessi mál í fjölmiðlum og annars nokkuð hávær verkalýðshreyfing hefur þagað þunnu hljóði. Fangaverðir vita ekki hvort þeir munu hækka eða lækka í launum eða jafnvel missa af þeim launahækkunum sem voru í farvatninu. Nú er svo komið að margir þeirra íhuga að róa á önnur mið. Við það verður ekki unað. Það verður að bregðast við og koma til móts við fangaverði til þess að reynsla og þekking hverfi ekki úr fangelsunum. Óvissan er algjör og svörin sem fangaverðir fá eru loðin ef einhver,“ skrifar Guðmundur.
DV ræddi við nokkra fangaverði sem taka undir þetta og segjast sannarlega hafa áhyggjur af stöðunni. Þeir segja þó ólíklegt að fólk hætti í sumar heldur vilji bíða til hausts og sjá hvernig staðan verður þá.
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir Fangelsismálastofnu í sömu stöðu og flestar aðrar stofnanir – að þessi mál séu öll á byrjunarstigi og verið að vinna í að útfærslan komi sem best út.
„Við fórum út í vaktakerfisbreytingar samkvæmt þeim leiðbeiningum sem opinberar stofnanir fengu. Þetta eru miklar breytingar og flækjustigið töluvert. Við notumst nú við bráðabirgðavaktakerfi og ætlum að nýta sumarið til að útbúa vaktakerfi sem nær að koma til móts við sem flesta.“
Spurður hvort öryggi fanga og fangavarða sé stefnt í hættu með styttingu vinnuvikunnar segir hann að það sé auðvitað aldrei markmiðið og að alltaf sé unnið að því að öryggi allra sé tryggt.
Þá segir Páll að ef einhverjir lækka í launum við breytingarnar verði sömuleiðis unnið að því að leiðrétta það.
Guðmundur Ingi segist telja styttingu vinnuvikunnar vera til góðs. „…en það er á sama tíma ljóst að stjórnvöld verða að veita Fangelsismálastofnun það fjármagn sem þarf til þess að manna allar stöður og skal þá engan afslátt gefa á öryggi fanga og fangavarða,“ segir hann í greininni.