fbpx
Mánudagur 14.júlí 2025
Fréttir

Hræðileg vanræksla barna með sérþarfir – 7 ára stúlka segir „Það væri best að ég væri bara ekki til. Það hata mig allir“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 2. júní 2021 16:00

Mynd/Pexels

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alma Björk Ástþórsdóttir, laganemi, hvetur barnamálaráðherra og menntamálaráðherra til að grípa inn í þá grátlegu stöðu sem upp er komin í skólakerfinu á Íslandi hvað varðar börn með sérþarfir. „Börnin sem virðast hvergi eiga heima. Börnin sem eru fyrir. Börnin með mesta vesenið. Börnin sem passa ekki inn í kassann. Börnin sem beita ofbeldi. Börnin sem kasta til borðum og stólum. Börnin sem „tínast“ í skólanum og koma svo heim algjörlega örmagna vegna yfirþyrmandi aðstæðna og vilja helst af öllu láta sig hverfa.“

Hún vekur athygli á málinu í pistli sem birtist hjá Vísi.

Hún segir að samkvæmt meistararitgerð Ásdísar Ýrar Arnardóttur, fötlunarfræðings,  sé nemendum með hegðunarvandamál stundum vísað úr skóla vegna þrýstings frá kennurum og foreldrum annarra barna.  Kerfið ráðist ekki að rótum vandans heldur ýti frekar þessum börnum í burtu.

„Þegar þau hafa brennt allar brýr að baki sér, er lausnin að senda þau tímabundið í sérskóla. Í einhverjum tilfellum hefur heimaskólinn svo neitað að taka við þeim aftur. Það virðist nefnilega vilji kerfisins að hafa þessi börn utan almenna skólakerfisins „af því að þetta er bara eins og með óhreinu börnin hennar Evu“ var haft eftir skólastjóra ákveðins sérskóla.“

Alma segir að í kringum þessi börn ríki algjört varnarleysi. Aðgangur að fagaðilum sé takmarkaður og engin virðist vita hvernig takast á við aðstæðurnar.  Skóli án aðgreiningar sé því ekki raunnefni.

„Í langflestum tilfellum einungis fyrir „venjulegu“ börnin. Ekki óhreinu börnin. En við skulum hafa „án aðgreiningar“ með því þetta er svo falleg stefna!“

Hún segir það oft kaldhæðnislegt að lesa pistla frá pólitíkusum þar sem fjallað er um mikilvægi barna og mikilvægi þess að þeim líði vel. Það séu marklausar yfirlýsingar þegar ekkert sé gert til að bæta stöðu barna með sérþarfir.

„Það er nokkuð skýrt í ljósi þess að börn með sérþarfir hafa verið vanrækt í yfir 15 ár þvert á stjórnmálaflokka og ráðherra. Kennarar, foreldrar og sérfræðingar í menntamálum hafa til margra ára stigið fram með skýrslur, fréttir og pistla þar sem fjallað er um alvarlega stöðu þessara barna, en ekkert breytist…“

Bendir Alma á að samkvæmt Gunnlaugi Magnússyni lektor í menntunarfræðum hafi stefnan „Skóli án aðgreiningar“ í einhverjum tilvikum verið nýtt sem sparnaðartæki „þar sem börn hafa verið færð úr dýrum úrræðum yfir í venjuleg rými án þess að peningur fylgi með og án eftirfylgni með líðan nemenda“.

Tekur Alma dæmi um setningar sem „raunverulegir litlir einstaklingar með tilfinningar eins og allir aðrir, hafa sagt við foreldra sína,“ sem greint er frá í hópnum „Sagan okkar“ á Facebook.

„7 ára stúlka: „Það væri best að ég væri bara ekki til. Það hata mig allir“

9 ára stúlka: „Ég kann ekki að vera til“

10 ára drengur: „Ég skipti engu máli“

11 ára drengur: „Ég er heimskur og kann ekki neitt“

7 ára stúlka: „Settu mig bara í ruslið, þar á ég heima“

9 ára drengur: „Mamma, ég veit að þú elskar mig alltaf en ég á það ekki skilið. Ég er svo hræðilega vondur“

Hún hvetur því menntamálaráðherra og barnamálaráðherra til að laga þetta ástand fyrir næsta skólaár.

„Það er ýmislegt hægt að gera á nokkrum dögum sem myndi létta þessum börnum og foreldrum þeirra lífið á allan hátt. En það þarf vilja. Spurningin er hvort viljinn sé til staðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Telja að flugmennirnir hafi valdið flugslysinu sem kostaði 260 manns lífið

Telja að flugmennirnir hafi valdið flugslysinu sem kostaði 260 manns lífið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill furðaði sig á notkun orðskrípisins „kjarnorkuákvæði“ – Áttaði sig svo á því að hann var sennilega sá fyrsti sem kom því á flug

Egill furðaði sig á notkun orðskrípisins „kjarnorkuákvæði“ – Áttaði sig svo á því að hann var sennilega sá fyrsti sem kom því á flug