Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að yfirvöld séu undir það búin að fleiri greinist smitaðir í Þorlákshöfn á næstu dögum. Vísir fjallaði um málið og greindi frá því að viðbúnaðarstig í Þorlákshöfn hafi verið fært upp um stig eftir að nemand grunnskóla í bænum greindist með kórónuveiruna í dag.
Undanfarna daga hefur smitum í Þorlákshöfn fjölgað, sjö hafa greinst utan sóttkvíar í bænum í gær og í fyrradag. Starfsmaður á leikskóla í bænum greindist smitaður og er útlit fyrir að fleiri nemendur í leikskólanum og grunnskólanum hafi smitast.
Grunnskólanum hefur nú verið lokað en hann verður lokaður út vikuna. Nemendur í fjórða, fimmta og sjöunda bekk grunnskólans verða boðaðir í skimun auk starfsmanna skólans. Elliði greindi sjálfur frá þessu í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni en hann hefur verið duglegur við að koma upplýsingum til skila þar síðan hópsmitið hófst í bænum.
Elliði segist vera þakklátur fyrir skilninginn sem foreldrar sýna stöðunni. Hann hefur ekki frekari upplýsingar um fjölda smita í bænum en að útlit sé fyrir að fleiri smit séu í samfélaginu. Ekki er vitað hversu útbreitt það er. Hann hvetur bæjarbúa til að fara í sýnatöku ef það verður vart við einhverjum einkennum veirunnar.