Réttarhöldin yfir manninum sem gefið er að sök að hafa myrt þrjá og reynt að bana tíu til viðbótar með íkveikju að Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní síðastliðið sumar hófust nú í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hinn ákærði, Marek Moszczynski, mætti í dómshúsið rétt fyrir klukkan níu í handjárnum og í fylgd lögreglumanna. Marek hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í júní.
Marek var svo leiddur inn í dómsal eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan. Marek er þar í fylgd með túlki sínum, lögmanni sínum Stefáni Karli Kristjánssyni og lögreglumönnum.
Eftir þreifingar um gagnaöflun á milli lögmanna í málinu og dómara var Marek boðið í vitnastúku enda fyrsta vitni á dagskrá. Lögmaður Mareks, Stefán Karl tilkynnti þá réttinum að hann myndi ekki gefa vitni í málinu.
Marek var engu að síður kallaður í vitnastúku þar sem dómari spurði hann hvort að rétt væri að hann hygðist nýta rétt sinn til að svara ekki spurningum dómsins.
„Hvað get ég sagt. Ég er saklaus. Mikill harmleikur,“ sagði Marek úr vitnastúku.
Dómarinn spurði Marek þá hvort hann myndi eitthvað eftir þessum degi. „Er eitthvað sem þú vilt segja okkur?“ spurði dómarinn. „Ég man allt saman, þó ég hafi verið veikur,“ svaraði Marek.
Marek vildi ekki tjá sig meira, en vísaði þess í stað á fyrri framburð. „Ég var yfirheyrður tvisvar/þrisvar af lögreglu, og ég staðfesti þann framburð.“
Marek var þá leystur úr vitnastúku klukkan 9:30. Næsta vitni á dagskrá hafði ekki verið boðað fyrr en klukkan 10:00, og gerði dómarinn því hlé á þinghaldinu. Þá kom fram krafa um að ákærði yrði ekki viðstaddur skýrslugjöf næsta vitnis og að þinghaldið yrði lokað á meðan hún bæri vitni.
Stefán Karl, lögmaður Mareks hafði áður gert kröfu um að öllu þinghaldinu yrði lokað, án árangurs. Sagði hann því mikil „íronía“ í því að slík krafa kæmi fram af hálfu ákæruvaldsins í tilfelli þessa eina vitnis. Að því sögðu gerði Stefán ekki formlegar athugasemdir við lokun þinghaldsins og fer því vitnisburður næsta vitnis fram fyrir luktum dyrum.
Stefán spurði þá hvort lögreglumenn gætu ekki leitt Marek út fyrir dyr dómsalsins, svo hann kæmist í „smók.“ Lögreglumennirnir urðu við þeirri beiðni.