Á dögunum komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Sómi ehf. hafi ekki brotið reglur með merkingu Júmbó-samloka. Merkið er einstaklega líkt merkjum Jömm og Oatly, sem bæði framleiða vegan matvörur.
Í október 2019 bárust líkindi merkjana fyrst í tal en þá hafði Júmbó nýlega skipt yfir í þessar nýju merkingar. Það var síðan í júlí 2020 sem Veganmatur ehf. og Oatly AB sendu kvörtun á Neytendastofu yfir óréttmætum viðskiptaháttum Sóma ehf. og notkun félagsins á auðkenninu JÚMBÓ.
Neytendastofa taldi merkin ekki nægilega lík til að neytendur færu að ruglast á þeim. Mestu líkindin felast í bókstafnum M sem er í merkjum beggja framleiðanda en framsetning stafsins er nær öllu leyti sambærileg framsetningu á sama staf í letrinu Pacmania Normal sem er aðgengilegt öllum og ekki sérkennandi fyrir starfsemi Veganmatar.
Grafíski hönnuðurinn Agnar Freyr Stefánsson birti í gær myndband á Twitter-síðu sinni þar sem hann sýnir hvernig honum tókst að breyta merki Jömm yfir í merki Júmbó á aðeins 40 sekúndum. Að hans sögn er það ekki eðlilegt að svo auðvelt sé að breyta einu merki yfir í annað á svo stuttum tíma.
SORRY en það á ekki að taka mig 40 sekúndur að búa til logó JÚMBÓ útfrá logói JÖMM.
Hvernig er þetta ekki of líkt til að villa fyrir viðskiptavinum?? @neytendastofa @jommnomm pic.twitter.com/RpvljIv7zl— Agnar (@PartlyCheese) March 22, 2021