Unnur Eggertsdóttir er miðaldra íslensk kona sem býr í Svíþjóð. Í vor lést tengdafaðir hennar af Covid-19 og segir Unnur að hún og fjölskylda hennar hafi upplifað undarleg viðbrögð heilbrigðistyfirvalda í Svíþjóð við veikindum föður hennar.
Þetta kemur fram á vef Útvarps Sögu
Unnur segir að tengdaföður hennar hafi verið gefið lyfið Alvedon en það sé gefið við höfuðverk en ekki veirusýkingum. Tengdafaðir hennar bar merki Covid-sýkingar en fékk þó ekki, af óljósum ástæðum, skimun fyrir veirunni.
Tengdafaðir Unnar var settur í líknarmeðferð án þess að hafa verið sjúkdómsgreindur. Segir Unnur að það sé engu líkara en sænsk yfirvöld hafi ákveðið að fórna velferð eldri borgara í skiptum fyrir opnara samfélag. Ættingjar tengdaföðursins hafa farið fram að fá í hendur öll gögn varðandi andlát mannsins til að leggja mat á réttarstöðu fjölskyldunnar gagnvart yfirvöldum.
„Reynsla mín af heilbrigðiskerfinu er ekki mjög góð,“ segir Unnur í viðtali við Útvarp Sögu. Tengdafaðir Unnar bjó á hjúkrunarheimili í Svíþjóð og hafði gert það í tvö ár. Talið er að starfsmaður hafi borið veiruna inn á heimilið þar sem gamli maðurinn bjó.
Eftir að maðurinn veiktist mátti enginn heimsækja hann og hann var einangraður í herbergi. Starfsfólk sem sinnti honum var í hlífðarfatnaði en þó var hann ekki skimaður fyrir Covid og starfsfólkinu var bannað að taka sýni af honum.