Á upplýsingafundi almannavarna í dag vegna kórónuveirufaraldursins spurði DV hvort, í ljósi þess að margir eru orðnir langþreyttir á óvissunni, það sé hægt að skapa einhver viðmið varðandi það hvenær sóttvarnaraðgerðir eru hertar og hvenær á þeim sé slakað, svo sem með því að miða við nýgengi smita. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir að það sé ekki nóg að horfa til nýgengis smita heldur séu fjölmargir þættir sem þurfi að huga að og þeir þættir séu að miklu leiti ófyrirsjáanlegir.
„Ég er búinn að gefa út lista, þar sem stendur hvað skiptir máli þegar sóttvarnarlæknir, það er að segja ég, er að hugsa um hvort það þurfi að herða eða slaka á aðgerðum og það er bara fjölmargt. Þess vegna er mjög erfitt að gefa út fram í tímann nákvæmlega hvað verður gert ef að eitthvað gerist.
Það þarf að taka tillit til fjölmargra þátta. Það er nýgengi smita, það er hversu margir eru í sóttkví, hvar smitin eru á landinu, hversu alvarleg veikindi eru, hvernig spítalakerfið er í stakk búið og svo framvegis. Það eru fjölmargir þættir.
Ég vildi óska þess að það væri hægt að segja nákvæmlega fram í tímann og vera með fyrirsjáanleika, en það er bara svo margt sem er ófyrirsjáanlegt í þessu að það er ekki hægt fyrir mig að koma með fyrirsjáanleika þegar allt sem við erum að eiga við er ófyrirsjáanlegt.“
Alma Möller, landlæknir, bætti við að Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðisstofnunar hafi nýlega gefið út skýrslu þar sem komi fram að öll önnur lönd glími einnig við farsóttar þreytu um þessar mundir.
„Það eru öll lönd að glíma við þetta saman og það eru engar einfaldar lausnir að takast á við það. En það er alveg rétt að fyrirsjáanleiki er eitt af því.“
Fyrirsjáanleiki sé hins vegar erfitt verkefni þegar ríki eru enn að prófa sig áfram í baráttunni við veiruna.
„Það eru öll lönd að glíma við það að prófa sig áfram með hvernig þau geta haldið smitum í skefjum samt með sem minnstu áhrifum á daglegt líf. Það er líka mikilvægt varðandi farsóttarþreytu að hafa fyrirmæli einföld og skýr og við getum örugglega gert betur þar og líka eitt í viðbót sem við getum skoðað það eru svona sérstök skilaboð til valinna hópa svo það er að mjög miklu að hyggja.“