Ekkert lát virðist vera á óeirðum í Portland og brutust út óeirðir í nótt fyrir utan alríkisdómstólinn í borginni. Var flugeldum skotið að byggingunni og svaraði fulltrúar alríkisins með táragasi. Þúsundir voru saman komnir til að mótmæla dómi sem féll alríkinu í vil. Hafði í málinu Oregon ríkið krafist þess að heimildir alríkislögreglumanna til að handtaka borgarbúa yrðu takmarkaðar.
Vera alríkislögreglumannanna í borginni er talin tengjast kosningabaráttu Trump, sem talar nú hátt fyrir að viðhalda lögum og reglum og hefur áður sagt að til að viðhalda reglu í samfélaginu þurfi að berja niður mótlæti með hörku. Vöktu orð hans hörð viðbrögð.
Um klukkan átta í gærkvöld í Portland höfðu hundruðir komið saman, sumir með grímur og hjálma og hófu göngu sína upp að alríkisdómstólnum þar sem alríkislögreglumenn biðu eftir þeim. Fjölmargir hópar komu að skipulagningu göngunnar, þar á meðal mótmælahreyfing heilbrigðisstarfsmanna, kennara og lögmanna, sem og „mæðraveggurinn,“ mótmælahreyfing mæðra í borginni og Black Lives Matter hreyfingin.
Heyrðist mannmergðin syngja „Feds go home,“ eða „alríkisfulltrúar farið þið heim,“ inn í nóttina og trommusláttur undir. Hitnaði svo í kolunum eftir því sem leið á nóttina og þegar glerflöskum og öðru lauslegu var kastað að lögreglunni svaraði hún, sem áður sagði, með táragasi.
Alríkisfulltrúar Donald Trumps voru sendir til Portland til að draga úr óeirðum þar og hafa handtekið tugi manna. Hafa handtökuaðferðirnar skapað talsverða úlfúð um öll Bandaríkin, sér í lagi eftir að upptökur fór í dreifingu af vígbúnum alríkislögreglumönnum draga mótmælendur inn í ómerkta bíla. Þótti senan minna helst á eitthvað sem þekktist á tímum sovétríkjanna eða í kommúnistaríkinu Kína.
Ekkert bendir til þess að dregið hafi úr óánægju manna, reiði eða óeirðum og má vænta þess að þær haldi áfram á næstu dögum.