fbpx
Miðvikudagur 07.maí 2025
Fréttir

Blindir gengu Laugaveginn – „Algjörar hetjur sem sýndu aldrei uppgjöf“

Heimir Hannesson
Laugardaginn 25. júlí 2020 15:04

mynd/Edith Gunnarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum gekk Heljarmennafélagið, ferða- og útivistarklúbbur Blindrafélagsins, Laugaveginn og þótti ferðin hepnast vel. Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er hér um að ræða gönguleiðina víðfrægu á milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Heljarmennafélagið hefur verið starfandi í þó nokkuð mörg ár og hefur áður skipulagt minni ferðir. „Við höfum verið að ganga í þó nokkuð mörg ár og nú vorum við nokkur sem langaði mikið að ganga Laugaveginn. Við sáum að þetta sumar var tilvalinn tími til þess þegar fámennt væri á gönguleiðinni og líklega auðveldara að fá leiðsögumenn með okkur,“ sagði Kristinn Halldór Einarsson, framkvæmdastjóri Blindrafélagsins og einn ferðamaðurinn um Laugaveginn. Aðspurður hvort þetta hafi verið jákvæð afleiðing Covid-19 faraldursins og ástandsins vegna hans, segir hann að það mætti segja svo.

Erfiðasta verkefni hópsins hingað til

Hópurinn hefur áður gengið krefjandi göngur, til dæmis um Fimmvörðuháls, og hringferð um landið þar sem gist var í tjöldið árið 2013 þar sem þau gengu Snæfell og Kristínartinda. Laugavegurinn sé hins vegar erfiðasta verkefni hópsins hingað til. „Það er þarna Kjarni í félaginu sem hefur gaman af því að láta reyna á sig,“ segir Kristinn. Hann segir hópinn hafa æft stíft fyrir ferðina og meðal annars gengið fjöll í nágrenni Reykjavíkur með vinum og ættingjum.

Kristinn segir að í hópnum sé fólk með verulega sjónskerðingu, minna en 10% sjón. „Sú sjón nýtist okkur eitthvað,“ segir hann, „Þeir sem eru mest sjónskertir, þeir fá einhvern fyrir framan sig sem er þá gjarnan í neon-lituðu vesti eða með bakpoka í skærum lit. Það gerir þeim mest sjónskertu auðveldara fyrir að sjá þann fyrir framan sig og fylgja réttri stefnu.“

Hópurinn fór ferðina í fjórum leggjum, gengu þau fyrsta legginn á sex tímum og korteri, annan legginn á sjö tímum, þann þriðja á sjö tímum og 50 mínútum og síðasta á átta og hálfri klukkustund. Síðasta daginn rigndi örlítið og fólk var orðið þreytt svo það hægðist eðlilega aðeins á hópnum þá, segir Kristinn.

Hópurinn vel undirbúinn

Kristinn segir að hópurinn hafi náð að halda uppi ágætis gönguhraða uppí móti og á jafnsléttu, en á grýttum köflum hægðist verulega á. „Ef það er klöngur eða stórgrýtt gönguleið, þá fórum við mjög hægt yfir. Almennt sýnist mér að við séum að fara hefðbundnar gönguleiðir á svona 25-30% meiri tíma en eðlilegt þykir. Það veltur allt á því hversu grýtt leiðin er.“

Allir í hópnum gengu með stafi segir Kristinn og hann var nú í fyrsta skipti með leiðsöguhund með sér í ferðinni. „Ég sá hundinn, og þess vegna gat ég horft aðeins upp frá mér og notið útsýnisins betur.“ Kristinn er með mjög þröngt sjónsvið, sem spannar 6-8 gráður, að hans sögn, og ef hann þarf að horfa niður og fylgjast með hvert hann stígur niður fæti þá sér hann ekkert annað en jörðina. Kristinn segist því hafa getað notið þess betur að ganga og upplifunin hafi verið meiri með hundinn með sér.

Hópurinn var velskipulagður, ákveðinn hópur sá um að elda matinn og útbúa nesti, aðrir vöskuðu upp, enn aðrir báru inn trússið. Verkaskiptingin var mjög skýr. Eins var gangan sjálf þaulskipulögð að sögn Kristinns. „Þá var búið að raða saman tveim til þrem einstaklingum sem mynduðu lítinn hóp og aðstoðuð hverja aðra eftir þörfum. Við vorum samtals 17 auk tveggja leiðsögumanna. Þeir sem voru hægastir gengu fremst með fremri leiðsögumanni og þeir sem fóru hraðar yfir voru aftast. Þeir gátu þá aðeins slórað ef þeir vildu, stoppað og tekið myndir og svona, en höfðu alltaf möguleika á að ná hópnum aftur. Þannig gátu allir notið ferðarinnar á sínum hraða,“ segir Kristinn.

„Algjörar hetur sem sýndu aldrei uppgjöf“

Edith Gunnarsdóttir var einn leiðsögumaðurinn með í ferðinni og má lesa af kveðju sinni til félagsins í lok ferðarinnar að hún hafi verið upp með sér. „Eitt orð, ÞAKKLÆTI. Vá, algjörlega frábær ferð yfir Laugaveginn með 17 manns frá Blindrafélaginu og leiðsöguhundinum Vísi. Mörgum fullsjáandi finnst þessi leið krefjandi en þau gerðu þetta með stæl og eru algjörar hetjur sem sýndu aldrei uppgjöf eða kvörtuðu yfir neinu. Það sem einkenndi hópinn var gleði, ánægja, þakklæti, húmor, samvinna og samhugur. Ég á eiginleag ekki til orð, ég lærði ótrúlega mikið af þessum hóp sem ég tek með mér heim. Þau sýndu að maður getur allt sem maður vill og ætlar sér ef viljinn er fyrir hendi.“

Edith sagði við blaðamann DV að ferðin hafi gengið miklu betur en hún átti von á. Hópurinn hafi verið mjög vel undirbúinn sá undirbúningur skilaði sér í þessari vel heppnuðu ferð. „Þau gerðu þetta með svo miklum stæl, óðu yfir allar árnar, voru svo þakklát, það var svo mikill húmor í þeim og gleði og ánægja. Það skein af hópnum gleðin,“ sagði Edith.

Ferðahópurinn Heljarmennin er strax farinn að ræða næstu ferð og skipuleggja hvert skal haldið. Kristinn segir Víknaslóðir fyrir austan, við Borgarfjörð eystri, komi til greina.

Aðspurð hvort kæmi til greina að fara í aðra ferð með hópnum segir leiðsögumaðurinn Edith glöð í bragði: „Ekki spurning. Ég þyrfti ekki einu sinni að hugsa mig um, ég myndi bara strax segja já.“

Meðfylgjandi myndir eru úr ferðinni og birtar með leyfi félagsins og leiðsögumanns.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Vilhjálmur foxillur út í ríkisstjórnina „Það er ekki réttlæti. Það er svívirða“

Vilhjálmur foxillur út í ríkisstjórnina „Það er ekki réttlæti. Það er svívirða“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Útburður að hefjast á Sigurbjörgu úr hryllingshúsinu við Bríetartún – „Ég fékk tvo virka daga til að vinna í málinu“

Útburður að hefjast á Sigurbjörgu úr hryllingshúsinu við Bríetartún – „Ég fékk tvo virka daga til að vinna í málinu“
Fréttir
Í gær

Bónus hefur afhent 500 nýfæddum börnum Barnabónus

Bónus hefur afhent 500 nýfæddum börnum Barnabónus
Fréttir
Í gær

Ferðamaður óttast að gera Íslendinga reiða með því að panta hvalkjöt – „Þetta er ekki einu sinni gott“

Ferðamaður óttast að gera Íslendinga reiða með því að panta hvalkjöt – „Þetta er ekki einu sinni gott“
Fréttir
Í gær

Segir vinnubrögð samskiptaráðgjafa hafa ýtt bróður sínum í sjálfsvíg – ,,Við fáum aldrei manninn til baka. Við ætlum að hreinsa mannorðið hans“

Segir vinnubrögð samskiptaráðgjafa hafa ýtt bróður sínum í sjálfsvíg – ,,Við fáum aldrei manninn til baka. Við ætlum að hreinsa mannorðið hans“
Fréttir
Í gær

Katrín segir Grænland ekki vera til sölu – Trump hótar á ný

Katrín segir Grænland ekki vera til sölu – Trump hótar á ný