Björgunarsveitir leita nú tveggja göngumanna í vanda á Trékyllisheiði. Hafa þeir verið á gangi í tvo daga, að sögn Landsbjargar, og eru nú staddir nálægt Búrfelli. Mikil þoka er á staðnum og lélegt skyggni.
Ekki er talið að þeir séu slasaðir, en þeir eru orðnir kaldir og hraktir, segir í tilkynningu Landsbjargar.
Ennfremur segir í tilkynningu: „Fjórir hópar björgunarsveitarfólks eru komnir á heiðina á jeppum og leita þeirra. Upplýsingar um nákvæma staðsetningu liggja ekki fyrir en stað kunnugt björgunarsveitarfólk telur sig vita hvar þeir eru.“
Trékyllisheiði liggur á milli Steingrímsfjarðar og Reykjarfjarðar á austanverðum Vestfjörðum, norðan Hólmavíkur.