Laugardaginn 3. júní árið 2017 barst lögreglu tilkynning um hugsanlegt heimilisofbeldi. Var þetta laust eftir klukkan tvö í eftirmiðdaginn. Er lögreglumenn komu á vettvang tók á móti þeim kona í miklu uppnámi og brast hún í grát. Sagði hún að eiginmaður sinn hefði farið burtu skömmu áður. Sagði hún mann sinn hafa sýnt af sér mjög ógnandi hegðun um daginn. „Hann hefði stanslaust hreytt í hana fúkyrðum og því hafi hún ákveðið að læsa að sér inni í svefnherbergi. Hefði ákærði þá barið fast á hurðina og sagt henni að hypja sig út úr húsinu. Hún hefði neitað því og þá hefði ákærði sagst ætla að ná í áhald til að brjóta upp hurðina. Hefði ákærði farið út úr húsinu í smátíma þar til hann yfirgaf húsið og fór burt á bifreið sinni. Áður hafði brotaþoli komið skilaboðum til dóttur sinnar um að eitthvað mikið gengi á á heimilinu.“
Konan greindi síðan lögreglu frá meintu ofbeldi mannsins í sinn garð yfir áratuga tímabil. Sömu sögu hafði hún einnig að segja ráðgjöfum við Kvennaathvarfið og Bjarkarhlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, við önnur tækifæri.
Hjónin skildu skömmu eftir þetta atvik en konan segir ofbeldissögu sambandsins ná allt aftur til ársins 1981. Sú saga var undir við réttarhöld við Héraðsdóm Reykjaness sem kvað upp sýknudóm yfir manninum þann 14. júlí. Var hann ákærður fyrir ofbeldi í nánu sambandi í fimm tilvikum, sem svona var skýrt frá í dómnum:
- Með því að hafa í eitt skipti á tímabilinu mars til apríl á árinu 2002 í svefnherbergi á heimili þeirra að […], veist með ofbeldi að B og meðal annars vafið bol um háls hennar og hert að þannig að Bóttaðist um líf sitt.
2. Með því hafa í eitt skipti á árunum 2005 til 2007 á heimili þeirra að […], veist með ofbeldi að Bog meðal annars troðið sokk í munn hennar.
3. Með því að hafa í september 2008 á heimili þeirra í […], veist með ofbeldi að B og slegið hana ítrekað í andlit og búk með þeim afleiðingum að B hlaut mar og bólgur í andliti og víðsvegar um líkamann.
4. Með því að hafa aðfaranótt 14. mars 2010 í kjölfar rifrildis milli ákærða og B á hótel [ … ], ýtt við henni með þeim afleiðingum að hún féll við og skall höfuð hennar við það í gólfið og hún missti meðvitund. Voru afleiðingarnar af háttsemi ákærða þær að B hlaut heilahristing, brot á höfuðkúpu framan til vinstra megin frá enni aftur í hnakka og mar beggja vegna á framheila einkum neðri í hluta framheilalappanna og einnig á gagnaugasvæði heilans.
5. Með því að hafa 3. júní 2017 á heimili þeirra að […], sýnt af sér ógnandi hegðun í garð B, móðgað hana og smánað með því að hreyta í hana fúkyrðum sem leiddi til þess að Blæsti sig inni á baðherbergi af ótta við ákærða.“
Sýknaður vegna skorts á sönnunum
Maðurinn neitaði öllum ásökunum um ofbeldi og lýsti umræddum atvikum með öðrum hætti. Hvað varðar atvik númer eitt, er manninum var gefið að sök að hafa vafið bol um háls konunnar og þrengt að, þá kvaðst sonur hjónanna við skýrslutöku hjá lögreglu hafa komið að foreldrum sínum við þessar aðstæður en hann fór inn í hjónaherbergið til þeirra er hann heyrði öskur móður sinnar. Var hann þá um 13 ára gamall.
Hins vegar óskaði sonurinn, sem og önnur börn hjónanna, að bera ekki vitni fyrir dómi. Vegna ákvæða um beina sönnunarfærslu fyrir dómi var framburður hans í skýrslutöku hjá lögreglu því ekki lagður fyrir dóm.
Að atviki á hóteli (4. liður ákæru) þar sem konan hlaut töluverða áverka eftir fall reyndust ekki vera sjónarvottar.
Maðurinn var sýknaður af ákæru um ofbeldi í nánu sambandi en allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.