Ummælin koma í kjölfar þess að Jeffrey Ross Gunter, bandaríski sendiherrann á Íslandi, skrifaði færslu á Twitter síðu sína á mánudaginn. Í færslunni deildi Gunter annarri færslu sem Donald Trump bandaríkjaforseti skrifaði um kórónuveiruna.
„Við erum sameinuð í því markmiði að sigra ósýnilegu kínversku veiruna“ skrifaði Gunter og setti fána Íslands og Bandaríkjanna í lok færslunnar. Fór það öfugt ofan í þó nokkra Íslendinga að Gunter væri að bendla Ísland við uppnefnið „kínverski vírusinn“ sem Trump hefur ítrekað notað í faraldrinum. „Farðu heim með þetta rasista kjaftæði Gunter,“ skrifaði til að mynda Óskar Steinn, varaforseti Ungra jafnaðarmanna. „Vinsamlegast ekki nota íslenska fánann við hlið þess bandaríska í þessu máli,“ sagði annar notandi.
Erna Ýr var ekki sátt með ummæli samlanda sinna undir færslu sendiherrans. „Vandræðalegt að sjá hvernig ruslaralýður ræðst að bandaríska sendiherranum í þeim tilgangi að koma alræðisstjórn Kína til varnar,“ sagði Erna og deldi færslunni sem Gunter skrifaði.
Natan nokkur svarar Ernu. „Það er munur á stjórnvöldum í Kína og svo Kínverjum. Getum alveg verið nice og sleppt því að nota svona orðalag en á sama gangrýnt ógeðslega stjórn sem drepur borgara sína og lýgur að alþjóðasamfélaginu. Flestir þarna eru að gagnrýna orðalagið en ekki styðja kínversk stjórnvöld,“ sagði hann. Erna svarar honum og segir að gagnrýnin á orðavalið sé upprunin hjá kínverskum stjórnvöldum. „Nytsamir sakleysingjar á Íslandi í von um upphefð hjá góða fólkinu eru auðvitað ekki búnir að fatta það.“
Hafsteinn nokkur svarar þá Ernu og spyr hvort þetta sé ekki bara taktík Bandaríkjaforseta að varpa eigin ábyrgð á ástandinu yfir á Kínverja. „Svona eins og þegar krakkar kíta og annar þeirra segir „Hann byrjaði!!“ Ísland væri á slæmum stað ef þríeykið okkar væri í þessum pakka.“ Erna virðist ekki vera sammála og skýtur til baka. „Það væri ef til vill betra að fylgjast með þróun alþjóðastjórnmála áður en farið er að brúka munn við sendiherra stórvelda.“