Bergrós nokkur vekur athygli á þessu á Twitter-síðu sinni í dag. „Hvernig gerist þetta bara aftur og aftur og aftur?“ spyr hún. María nokkur svarar henni með því sem virðist vera kaldhæðni en hún segir þetta bara vera tilviljun. „Hefði 100% getað verið bara konur sko en þetta datt bara svona í þetta skiptið?“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það vekur athygli að engar konur eru á dagskrá á viðburði hér á landi. Það koma reglulega upp umræður í netheimum varðandi skort á kvenkyns atriðum þegar tónleikar eða aðrir viðburðir eru haldnir. Nú síðast vakti það athygli í Facebook-hópsnum Femínistaspjallið þegar dagskrá yfir tónlistaratriði á Símamótinu var birt. Um er að ræða knattspyrnumót fyrir stelpur en ekkert kvenkyns atriði var á dagskránni, bara karlkyns.
Tónleikarnir sem um ræðir fara fram í Valaskjálfi á Egilsstöðum yfir fjóra daga, frá 30. júlí til 2. ágúst. Þeir sem spila á tónleikunum eru Dúndurfréttir, Emmsjé Gauti, Ljótu Hálfvitarnir og að lokum Óskar Pétursson og Eyþór Ingi.
Reynt var að ná í stjórnanda hjá Valaskjálfi en án árangurs.