„Ég segi við ykkur sem eruð að hugsa um að starfa við löggæslu og hefja nám. Hugsið ykkur um, þið eruð að fara í láglaunastarf,“ segir Aðalsteinn Júlíusson lögreglumaður í pistli sem birtist í Morgunblaðinu og á Vísir.is. Aðalsteinn hefur starfað sem lögreglumaður frá árinu 1991. Hann útskrifaðist úr Lögregluskóla ríkisins árið 1998.
„Títtnefndur „niðurskurðarhnífur“ hefur alltaf hangið yfir höfði okkar sem sinnt hafa löggæslunni og legið eins og mara á okkur öll þessi ár sem ég hef starfað við þetta. Það þreytir mann. Eins hafði verkfallsrétturinn, sá eini möguleiki okkar til að ná fram kjarabótum verið þvingaður af okkur fyrir margt löngu þó rétt sé að lögreglumenn sömdu hann frá sér,“ segir Aðalsteinn.
Aðalsteinn nefnir að möguleikar á aukavinnu séu minni en áður. Aukavinnan hafði þó þau áhrif að lögregluþjónar næðu endum saman. „Mér finnst það í sjálfu sér fínt að aukavinnan sé á undanhaldi en þá verða grunnlaunin að vera næg, til að lögreglumenn geti leyft sér að vinna einungis vinnuskylduna sína og fjöldi okkar sé réttur til að anna þörfinni fyrir þjónustu okkar. Mér finnst vera að færast aftur í aukana eins og var hér áður að lögreglumenn vinni aukastarf/störf með fram löggæslunni frekar en að taka þær fáu aukavaktir sem í boði eru. Það er betur borgað að dæla bensíni á bíla svo dæmi sé tekið, með fullri virðingu fyrir því ágæta starfi.“
Aðalsteinn segist ekki eins stoltur af því að vinna fyrir íslenska ríkið og áður. Hann er vonsvikinn með vinnuveitanda sinn og hans framkomu við starfsfólk sitt. „Nýjasta dæmið er lokun fangelsisins á Akureyri. Dæmalaus framkoma Fangelsismálastofnunar gagnvart starfsmönnum sínum svo til skammar er. Ég vildi óska að ríkisvaldið tæki ákvörðun um að gera löggæslu og refsivörslukerfinu hærra undir höfði og færa hana framar í forgangsröðunina hvað fjárveitingar varðar. Enn fremur þyrfti ríkisvaldið að taka ákvörðun um hvort það ætlar að standa að þessari grunnþjónustu af myndarskap eða ætti ríkið kannski bara að hætta með löggæslu alfarið? Hvað finnst ykkur?“
Aðalsteinn hvetur Áslaugu Örnu dómsmálaráðherra að standa í fæturna og snúa ákvörðun um lokun fangelsisins á Akureyri þegar í stað. „Það verður dýrara fyrir ríkið, þegar upp er staðið að loka, heldur en að nýta fangelsið. Það ætti frekar að stækka það og efla heldur en að loka.“
Eins og fyrr segir er Aðalsteinn með 22 ára starfsaldur innan lögreglunnar, frá útskrift. Grunnlaun hans, sem staðgengill aðalvarðstjóra með titilinn óbreyttur lögreglumaður, eru 441.564 krónur. Nýútskrifaður lögregluþjónn, eftir tveggja ára háskólanám, fær rúmar 359.000 krónur á mánuði. „Nú spyr ég, finnast ykkur laun okkar vera í lagi?? Finnst ykkur í lagi að þau sem sinna öryggi ykkar og þjónustu við ykkur og löggæslu landsins og eru fyrst til að hlaupa inn í aðstæður þar sem aðrir hlaupa út, séu á þessum lúsalaunum við störf sín?“ veltir Aðalsteinn fyrir sér.