fbpx
Fimmtudagur 08.maí 2025
Fréttir

Flugfreyjur reiðar flugmönnum – „Þetta eru mannleysurnar sem við köllum samstarfsfélaga okkar“

Heimir Hannesson
Mánudaginn 20. júlí 2020 12:25

mynd/Ernir Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frost má segja að ríki í samskiptum flugfreyjustéttarinnar og kollega þeirra í háloftunum. Þótti mörgum botninn taka úr þegar þeir flugmenn sem höfðu skráð sig á „upprifjunarnámskeið“ til að gerast „öryggisfulltrúar“ um borð í flugvélum Icelandair fyrir helgi voru nafnbirtir á lokaðri Facebook síðu Flugfreyjufélagsins.

„Þetta eru mannleysurnar sem við köllum samstarfsfélaga okkar sem ætla sér að setja upp flugfreyjuhattinn og ganga í okkar störf eftir helgi.“ Þannig hefst innlegg flugfreyjunnar sem birtir listann. „Mikið vona ég að þeim líði vel í sálinni og séu stolt af sinni framgöngu.“

mynd/Facebook skjáskot

Aðdragandinn langur

Málið á sér þó nokkurn aðdraganda. Flugfreyjur höfðu verið með lausan kjarasamning til lengri tíma og kjaradeilan legið á borði Ríkissáttasemjara síðan 2019. Eftir 49 árangurslausa samningsfundi hjá Ríkissáttasemjara náðist loks samkomulag  í lok júní og var samningur borinn upp til atkvæðagreiðslu samkvæmt lögum og reglum um kjaradeilur. Fljótlega kastaðist í kekki milli samningsaðila og spruttu upp deilur um tvær greinar sem samkvæmt flugfreyjunum átti að vera í samninginum en voru ekki. DV sagði við upphaf atkvæðagreiðslunnar, sem stóð í nokkra daga og fór fram á netinu, að engar líkur væru á að hann yrði samþykktur vegna þessa. Það stóðst. Seinna viðurkenndi Flugfreyjufélagið að hafa ekki lesið yfir samninginn þegar hann var undirritaður.

Icelandair sagði svo í síðustu viku upp öllum þeim flugfreyjum sem eftir voru hjá félaginu. Sagði Icelandair að frekari vinnuframlags yrði ekki óskað eftir daginn í dag, mánudaginn 20. júlí. Sagði Icelandair jafnframt að samið yrði við annað stéttarfélag og fóru strax af stað bollaleggingar um hvaða félag það yrði. Var Íslenska flugstéttarfélagið nefnt sem líklegur arftaki FFÍ. Var flugfreyjum gert að skila skilríkjum, fatnaði og öðrum eigum Icelandair fyrir lok þessarar viku. Tilkynningin kom flatt upp á flugfreyjur og setti allt í bál og brand hjá verkalýðsfélögum landsins. Sagði Drífa Snædal, formaður ASÍ, meðal annars að samúðarverkföll kæmu til greina.

„Öryggisfulltrúar“ skapa úlfúð

Til að brúa bilið meðan samið væri við „annað íslenskt stéttarfélag,“ sagðist Icelandair ætla að nota „öryggisfulltrúa“ um borð í flugvélunum. Komu þar auðvitað ekki aðrir til greina en flugmenn, sem eru þjálfaðir til að sinna öllu öryggishlutverki um borð í flugvélunum sem þeir fljúga, til dæmis að aðstoða farþega með andlitsgrímur, opna og loka hurðum fyrir og eftir flug og virkja neyðarútganga.

Í tölvupósti sem Icelandair sendi flugmönnum voru þeir hvattir til þess að skrá sig á námskeiðið sem fyrst. DV hafði samband við nokkra flugmenn sem skráðu sig á námskeiðið. Þeir vildu ekki koma fram undir nafni og sögðu það vegna viðkvæmni í samskiptum flugmanna og flugfreyja annarsvegar, og flugmanna og Icelandair hinsvegar. Einn flugmaðurinn sagðist einfaldlega í atvinnuleit. Hann stæði frammi fyrir atvinnuleysi og væri á strípuðum launum á uppsagnarfresti sem dygði skammt fyrir útgjöldum. „Þegar atvinnuleysisbæturnar taka við verður það enn eitt höggið. Ég borgaði nokkrar milljónir fyrir mitt nám og langar að nýta það í eitthvað flugtengt,“ sagði annar.

Reiðar flugmönnum

Flugfreyjur eru, sem fyrr segir, reiðar flugmönnum fyrir að ætla að „ganga í sín störf,“ og sárnar þeim tilfinnanlega tómlæti flugmanna í kjarabaráttu FFÍ.

Flugmenn virðast reiðir flugfreyjum fyrir hvernig þær hafa „hagað sér“ í samningaviðræðunum og benda á að þeir hafi samþykkt samning sem var talsvert högg fyrir sína launaseðla án láta. Sama eigi við um flugvirkja. „Svo kemur þriðja stóra flugtengda stéttin og setur allt í uppnám. Manni blöskrar.“ Aðspurður hvað honum fyndist um orð sem féllu um sig og kollega sína á Facebook síðu Flugfreyjufélagsins segist hann ekki vilja tjá sig sérstaklega um það, en segir þó „mig hlakkar ekkert sérstaklega til að panta kaffi hjá þessu liði á næstunni.“

 

Uppfært kl 15:20: DV barst ábending þess efnis að mál nafnbirtingarinnar ofangreindar hafi verið afgreitt með heilli og heiðarlegri afsökunarbeiðni viðkomandi flugfreyju. Er DV ljúft og skylt að koma því á framfæri. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Fundu skaðleg efni í pólsku skyri sem auglýst er sem íslenskt – Sveppaeitur og klórat

Fundu skaðleg efni í pólsku skyri sem auglýst er sem íslenskt – Sveppaeitur og klórat
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Umdeilt 200 milljóna króna listaverk á að rísa í Vestmannaeyjum

Umdeilt 200 milljóna króna listaverk á að rísa í Vestmannaeyjum
Fréttir
Í gær

Grunur um fyrstu banvænu bjarndýrsárásina í Flórída – 89 ára gamall maður fannst látinn ásamt hundi sínum

Grunur um fyrstu banvænu bjarndýrsárásina í Flórída – 89 ára gamall maður fannst látinn ásamt hundi sínum
Fréttir
Í gær

Landsréttur fellir úr gildi gæsluvarðhald yfir Sigurði Almari

Landsréttur fellir úr gildi gæsluvarðhald yfir Sigurði Almari