„Flugfreyjufélagið óskaði eftir því að hitta viðsemjendur,“ sagði Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) í viðtalið við RÚV í nótt. Samningar náðust á milli Icelandair og FFÍ eftir að ríkissáttasemjari boðaði til fundar í gær.
Guðlaug segir hljóðið í sínum félagsmönnum hafa verið þungt undanfarið. „Þetta hafa verið erfiðir dagar. Nú fer vonandi að sjást til sólar og við förum að sjá bjartari tíma.“ Guðlaug á von á því að félagsmenn sínir kynni sér samninginn vel og taki upplýsta ákvörðun í kjölfarið.
Guðlaug er mjög ánægð með samninginn og væntir þess að kynna hann fyrir félagsmönnum sínum í vikunni. Samið er til ársins 2025.
„Það var mjög mikilvægt, í þessu verkefni sem við erum í, að vera með samninga við okkar flugfreyjur,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair við RÚV í nótt.
Bogi segir að ekki hefði verið hægt að sleppa því að segja upp öllum flugfreyjum félagsins miðað við stöðuna sem var í gær. Samningurinn sem var undirritaður í nótt byggir að miklu leyti á samningnum frá 25. júní sem flugfreyjur felldu. „Ákveðin atriði eru skýrð betur og ákveðin viðbótarhagræðing fyrir fyrirtækið.“ Bogi segir samninginn ágætis niðurstöðu og í takt við þau markmið sem félagið setti sér.
Bogi segir samninginn mikilvægan í verkefninu sem Icelandair stendur frammi fyrir í dag. „Við vonumst til að samningurinn verði samþykktur og þá er einn af mikilvægum verkþáttum sem við höfum verið að vinna í frá.“ Enn á eftir að ná samningum við lánardrottna og fram undan er einnig undirbúningur hlutafjárútboðs.
Flugmenn munu ekki sinna öryggisvörslu eins og til stóð. Uppsagnir flugfreyja og flugþjóna verða dregnar til baka í dag að sögn Boga.