Innipúkinn verður haldinn í 19. sinn í miðborg Reykjavíkur um verslunarmannahelgina. Boðið verður upp á fjölbreytta tónleikadagskrá föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld, 31. júlí – 2. ágúst.
Listamenn sem hafa boðað komu sína á hátíðina eru Bríet, Emmsjé Gauti, Flóni, GDRN, gugusar, Hipsumhaps, krassasig, Mammút, Reykjavíkurdætur, Skoffín og Une Misére. Tilkynnt verður um fleiri listamenn á næstu dögum og vikum.
Í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar segjir að eins og staðan sé núna í tengslum við heimsfaraldur Covid-19 verði í mesta lagi 500 miðar seldir á hverju kvöldi og hátíðarhöldum mun ljúka klukkan 23:00. „Við vinnum hátíðina innan þeirra reglna sem eru í gildi núna. Við vonumst til þess að einhverjar breytingar verði gerðar á reglum og að samfélagið verði í stakk búið til að taka á móti slíkum breytingum“ segir Ásgeir Guðmundsson framkvæmdarstjóri hátíðarinnar. Undanfarin ár hefur verið uppselt á hátíðina en nú þurfa skipuleggjendur að sníða sér stakk eftir vexti. „Eins og staðan er í dag verður Innipúkinn 500 manna hátíð,“ segir Ásgeir. Að sögn Ásgeirs er hátíðin með góða styrktaraðila sem gerir þeim kleift að halda hana.
Hátíðin í ár verður á Ingólfsstræti en ekki á Granda eins og undanfarin ár. Miðasala hefst í byrjun næstu viku á Tix.is. Forsala miða hefst fyrir meðlimi Sambandsins í Sambandsappinu á fimmtudaginn. Hægt er að kaupa helgarpassa á 8.990 krónur. Hann gildir alla helgina í Gamla bíó og á efri hæð Röntgen. Einnig er hægt að kaupa miða á stakt kvöld á 4.990 krónur. Einnig verður götudagskrá að deginum til og er hún opin öllum að kostnaðarlausu.