fbpx
Föstudagur 02.maí 2025
Fréttir

U2 og Celine Dion, VIP-partý og þjóðlegar gjafir – eyddu samt minna en Ísland

Heimir Hannesson
Mánudaginn 22. júní 2020 11:29

Írland telfdu fram U2 og Kanada Celine Dion í baráttu um sæti í Öryggisráði SÞ. Ísland eyddi meiru en ríkin tvö í sína tilraun árið 2008. mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kosningabarátta um sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er eitthvað sem allra jafna vekur litla eftirtekt utan diplómatískra hringja í New York og ætla mætti að baráttan færi fram innan flúorlýstra fundarherbergja höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í New York. Raunin er allt önnur.

BBC upplýsti nýverið að í baráttunni um kjör í öryggisráðið sem fram fór 17. júní s.l. kepptu Kanada, Noregur og Írland með eftirminnilegum hætti. Írland bauð diplómötum í New York upp á miða á tónleika U2 í borginni og Kanadamenn svöruðu með miðum á Celine Dion. Til viðbótar buðu löndin kjósendum uppá gjafaöskjur með þjóðlegu ívafi. Kanada er sagt hafa eytt andvirði 318 milljóna í framboðið sitt og hafa 13 starfsmenn starfandi við það eitt, Norðmenn eyddu um 387 milljónum og Írar um 130 milljónum. Sætin eru eftirsótt enda ráðið valdamikið og seta þar sagt færa ríkjum aðgang að ákvarðanatöku, mikilvægi á alþjóðasviðinu og vægi í umræðu.

Diplómatar eru sagðir bíða kosningabaráttu til öryggisráðsins með eftirvæntingu enda þýðir það „fjölmörg partý og margir viðburðir,“ segir Stephanie Fillion, blaðamaður hjá PassBlue, fréttaveitu um málefni Sameinuðu þjóðanna í viðtali við BBC.

Adam Chapnik, prófessor í varnarmálafræðum hjá Konunglega herskólanum í Kanada (e. Royal Military College of Canada), segir góða kosningabarátta samanstanda af góðri viðveru í New York, og vísar þar í öflugan sendiherra sem vitað er að hafi athygli og stuðning ráðamanna heima fyrir, nægu fjármagni og ríkulegum stuðning stjórnmálamanna í heimalandinu.

Ísland eyddi 380 milljónum og hlaut ekki kjör

Framboð Íslands til öryggisráðs SÞ árið 2008 vakti verðskuldaða athygli hér á landi. Framboðið var ákveðið 1998 og var því 10 ár í undirbúningi. Að endingu sigruðu mótframbjóðendur Íslands, Tyrkland og Austurríki og hirtu sætin í ráðinu. Heildarkostnaður af framboði Íslands yfir 10 ára tímabil nam 380 milljónum samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytisins og var kostnaðurinn því umtalsvert meiri en sá sem féll til við framboð ríkjanna sem nú öttu kappi. Af 380 milljóna heildarkostnaðar fóru  343 milljónir í kostnað vegna starfsmannahalds. Annar kostnaður, 36,5 milljónir, er ekki sundurliðaður í skýrslunni.

Framboð Íslands var stutt af Norðurlöndum, enda hefur lengi tíðkast að aðeins eitt Norðurland bjóði sig fram hverju sinni, og lagði utanríkisráðuneytið áherslu á gott orðspor landsins í mannréttindamálum, reynslu sína í hafréttarmálum og almenna friðsæld í smáríkinu. Kosningabaráttan fór fram víða um heim en takmarkaðist þó, að því er fram kemur í skýrslunni, af fáum sendiráðum Íslands um heim allan og takmörkuðum fjármunum.

Ingibjörg til Afríku og Össur til Kólumbíu

Segir í skýrslu utanríkisráðuneytisins að sérstaklega hafi verið litið til Afríkuríkja, sem samtals eru 53, og fékk Ísland formlega aðils sem Non-African State Member að Afríkusambandinu. Gerði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, víðreist um Afríku í atkvæðaleit. Skipaður var sérstakur erindreki gagnvart Afríkusambandinu árið 2008. Því hlutverki gegndi Svavar Gestsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, sem þá var sendiherra Íslands í Danmörku.

Ennfremur sótti Ísland í atkvæði smárra eyríkja sem talin voru geta orðið sveifluatkvæðin í atkvæðagreiðslunni. Gerðist Ísland áheyrnarfulltrúi í Samtökum Ameríkuríkja af því tilefni. Var þá Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, sendur til Medellin í Kólumbíu í atkvæðasmölum amerískra atkvæða.

Kosið var 17. október 2008. Tíu dögum fyrr höfðu neyðarlögin verið sett og Landsbankinn þjóðnýttur. Úr varð áralöng deila Íslands við Bretland, Holland um tryggingar innstæða á Icesave reikningum svokölluðum. Er bankahrunið sagt hafa haft úrslitaáhrif á framboð Íslands.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harma að mötuneyti fyrir eldra fólk í Hafnarfirði hafi verið lokað mánuðum saman – „Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð“

Harma að mötuneyti fyrir eldra fólk í Hafnarfirði hafi verið lokað mánuðum saman – „Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Frosti fordæmir frétt um hópnauðgun – „Hættuleg sorpblaðamennska“ – Segir að Frettin.is komi óorði á smærri fjölmiðla

Frosti fordæmir frétt um hópnauðgun – „Hættuleg sorpblaðamennska“ – Segir að Frettin.is komi óorði á smærri fjölmiðla