Norðurlandamót U16 og U18 ára landsliða drengja og stúlkna í körfubolta verður haldið dagana 4.-7. ágúst í Kisakallio í Finnlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ).
Er þetta mikið ánægjuefni innan herbúða KKÍ. Útlit var fyrir að engir landsleikir yrðu spilaðir á þessu sumri hjá liðum KKÍ. EM-mót FIBA hjá U16, U18 og U20 liðum KKÍ hafa verið felld niður sem og alþjóðlegt mót U15 liðanna sem átti að fara fram í Kaupmannahöfn síðastliðna helgi.
Norðmenn og Svíar taka ekki þátt í mótinu í ár. Norðmenn tóku ákvörðun að vera ekki með. Svíar fá hins vegar ekki leyfi til að fara yfir til Svíþjóðar eins og staðan er núna. Þessi ákvörðun er tekin í góðri sátt við körfuknattleikssambönd beggja landa.
Engir áhorfendur verða leyfðir á leikina og aðeins lágmarksfjölda starfsmanna frá hverju sambandi verður heimilt að vera á svæðinu. Allir leikir mótsins verða sýndir í beinni útsendingu á netinu ásamt því að vera í beinni tölfræði lýsingu.
Segir í tilkynningunni að verkefnið sé háð þeim fyrirvara að mótið fari eingöngu fram ef allt ástand vegna COVID-19 verði í lagi áfram í þjóðfélaginu og ferðalög áfram leyfð af hálfu yfirvalda sóttvarna og annara aðila vegna COVID-19 faraldursins bæði hér heima og í Finnlandi.
Íslensku liðin munu spila fjóra leiki hvert við Finnland, Danmörku og Eistland. Fjórði leikurinn verður úrslitaleikur eða leikur um 3. sætið.