fbpx
Föstudagur 02.maí 2025
Fréttir

Segir að lögreglan velji alltaf sömu „útvöldu“ lögmennina – „Fá greidda umtalsverða fjármuni“

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 18. júní 2020 21:10

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, segir að sakborningar lendi oft í því að leita til félagsins vegna verjenda sem þeir fá úthlutað. Þetta segir hann í pistli sem birtist á Vísi.

„Það kemur reglulega upp að sakborningar í sakamálum og fjölskyldur leiti til Afstöðu vegna lögmanna sem valdir hafa verið af lögreglu til að verja þá í sakamálum. Þetta á við um íslenska sakborninga og erlenda en þó sérstaklega þá síðarnefndu.

Sakborningar kvarta yfir því að verjendur séu ekki „vakandi“ yfir skýrslutökum og jafnvel húsleitum, illa gangi að ná í þá og að þeir séu illa undirbúnir í málflutningi svo eitthvað sé nefnt.“

Guðmundur bendir á að lögreglu sé skylt að útvega sakborningi sem hefur verið handtekinn, verjenda óski hann þess. Þegar það er gert segir Guðmundur að sömu örfáu lögmennirnir dúkki alltaf upp.

„Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er lögreglu skylt að verða við ósk sakbornings um tilnefningu verjanda ef hann hefur verið handtekinn. En staðan er oft sú að sakborningur hefur ekki tengsl við hæfan lögmann og veit ekki, eða man ekki, hvern hann á að fá í starfið. Þá tekur rannsakandinn til sinna ráða og tilnefnir „sinn“ lögmann fyrir viðkomandi sakborning.

Hagsmunir sakbornings eiga að ráða vali á verjanda. Hins vegar eru það einungis örfáir útvaldir lögmenn sem fá langflest mál frá lögreglu, ekki síst stóru málin. Í fangahópnum er talað um þessa lögmenn sem „löggulögmenn“ enda er hinn þröngi hópur tilnefndur aftur og aftur. Þetta fyrirkomulag er fram úr hófi óeðlilegt enda miklir hagsmunir í húfi.“

Hagsmunir virðast vera að spila inn í að mati Guðmundar. Hann spyr sig þó hvaða hagsmunir það séu.

„Hér er ekki verið að halda því fram að verjendurnir sem lögreglan tilnefnir séu slæmir lögmenn en það lítur út fyrir það að hagsmunatengsl séu til staðar. Lögmennirnir geta hæglega verið háðir því að lögreglan haldi áfram að tilnefna þá sem verjendur en fyrir það fá þeir greidda umtalsverða fjármuni, oft svo milljónum og skiptir. Það má vel ímynda sér það að hagsmunir lögreglunnar liggi í því að ekki sé of mikið haft fyrir vörninni.

Hverjir svo sem hagsmunirnir kunni að vera, eða kunni ekki að vera, hlýtur að vera óeðlilegt að sá sem rannsakar mál og vill ná fram sakfellingu velji þann sem á að standa í veginum.“

Guðmundur segir að bæði lögregla og lögmannafélagið geri lítið í þessu máli þrátt fyrir óskir Afstöðu.

„Í nóvember 2015 sagði Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að þetta stæði til bóta. Menn væru misviljugir að taka að sér verjendastörf en nú (árið 2015) ættu sér stað samræður á milli lögreglu og Lögmannafélagsins um uppfærðan bakvarðalista Lögmannafélagsins. Ekkert hefur þó breyst á þessum árum.

Afstaða hefur ítrekað bent Lögmannafélaginu á að úr þessu þurfi að bæta en allt hefur komið fyrir ekki. Lögmannafélagið virðist ekki hafa áhuga á málinu. Félagið hefur íhugað að senda dómstólum erindi en samkvæmt upplýsingum félagsins hafa þeir enga sérstaka aðkomu að málum sem ekki eru komin fyrir dóm. Hvað er þá til ráða?“

Að lokum bendir Guðmundur á að Afstaða hafi búið til lista með lögmönnum sem hafa reynst sakborningum og föngum vel.

„Afstaða telur það ekki sitt hlutverk að aðstoða sakborninga á rannsóknarstigi enda um viðkvæmt lögfræðilegt viðfangsefni að ræða. Hins vegar fer mikill tími í þessi mál enda óánægja oft mikil. Þess vegna hefur Afstaða tekið saman lista lögmanna sem fangar og sakborningar hafa haft góða reynslu af. Félagið leggur til að lögreglan kynni sér þennan lista og hafi hann við höndina þegar lögmenn eru valdir til verjendastarfa. Með því telur félagið að hagsmunatengsl á milli lögreglu og verjanda verði síður til staðar.“

Hér má sjá umræddan lögmannalista

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsmenn bregðast við eftir afhjúpun Kveiks: „Undirstrikar hvað við erum komin á skrítin stað“

Landsmenn bregðast við eftir afhjúpun Kveiks: „Undirstrikar hvað við erum komin á skrítin stað“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þór í hálfgerðu áfalli eftir gærkvöldið

Ólafur Þór í hálfgerðu áfalli eftir gærkvöldið