Þann 17. júní 1944 lýstu Íslendingar yfir stofnun lýðveldisins Íslands á Þingvöllum. Lauk þar með atburðarrás sem hófst með ályktun Alþingis 25. febrúar það sama ár um að slíta formlegu konungssambandi við Dani. Dagurinn fyrir Lýðveldishátíðina á Þingvöllum fór í loka undirbúning, stólum raðað upp og tjöld reist. Myndbandsupptökuvélar voru ferjaðar frá Reykjavík og svið reist fyrir ræðuhöld fyrirmenna daginn eftir.
Í timburmyllubæ í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum var öllu dekkri atburðarrás að ljúka. Fjarri heimahögum og fjölskyldu sinni lést George Stinney Jr. þennan dag árið 1944 í rafmagnsstól í fangelsi í Suður Karólínu. Þó aðilum málsins væri það ekki ljóst þá, átti atburðarrásin eftir að öðlast framhaldslíf síðar meir.
George Stinney var 14 ára gamall árið 1944. George var svartur á hörund og bjó í hverfi blökkumanna í bænum Alcolu með foreldrum sínum og fjórum systkinum. Líf þeirra átti eftir að umturnast þegar lík tveggja hvítra telpna, þeirra Betty June Binnicker, 11 ára, og Mary Emmu Thames, 7 ára, fundust í skurði í svarta hluta Alcolu þann 23. mars 1944. Óvenjulegt var að hvítt fólk sæist í svarta hluta bæjarins og öfugt, en á þessum tíma í syðri ríkjum Bandaríkjanna var aðskilnaðarstefnan í fullum gangi. Kirkjur, skólar, veitingastaðir og biðstofur voru aðskildar. Ein kirkja fyrir hvíta, önnur fyrir svarta. Einn skóli fyrir hvíta, annar fyrir svarta.
George og systkini hans höfðu aðstoðað við leitina sem fram fór þegar stelpurnar skiluðu sér ekki heim og sögðu yfirvöldum frá því að stelpurnar höfðu spurt vega skömmu áður en þær létust. Það næsta sem hægt er að lesa úr gögnum málsins, sem eru mjög takmörkuð, er að George hafði verið handtekinn og ákærður fyrir morðið. Ekki liggur fyrir á hvaða rökum sá grunur var reistur né hvernig handtakan bar að.
14 ára gamall, var George hnepptur í hald og meinað að hitta lögfræðing eða foreldra sína. Samkvæmt handskrifaðri skýrslu viðurkenndi George að hafa orðið stelpunum að bana og benti lögreglumönnum á morðvopnin. Morðvopnin höfðu reyndar löngu fundist í skurði nálægt þar sem stelpurnar fundust. Fjölskyldufaðirinn missti vinnuna sína í bænum og var fjölskyldan hrakin burt með hótunum um að hún yrði annars hengd án dóms og laga.
Val á kviðdómendum, málflutningur, úrskurður kviðdóms og upplestur dóms tók einn vinnudag. Drengurinn var dæmdur til dauða. Kviðdómur tók 10 mínútur að ákveða örlög drengsins. Enginn svartur maður sat í kviðdómi, né var svörtum manni hleypt í áhorfendasæti dómssals – þ.m.t. fjölskyldu drengsins. Drengurinn hafði ekki fengið lögmann fyrr en í málaferlunum fyrir dómi og sá hann enga ástæðu til þess að áfrýja málinu. Lögmaðurinn kalli engin vitni til varnar Stinney, lagði enga fjarvistarsönnun til, þó líklegt sé að hún hafi verði til staðar, og spurði lögreglumenn ekki út í misvísandi frásagnir af meintri játningu drengsins.
George Stinney jr. var aflífaður í rafmagnsstól í ríkisfangelsi Suður Karólínu 16. júní 1944, fyrir réttum 76 árum síðan, og jarðaður í ómerktri gröf. Honum var reistur legsteinn árið 2014 eftir sýknudóm.
60 árum eftir aftökuna tóku mannréttindasamtökin Civil Rights and Restorative Justice Project upp málið að nýju sem ásamt lögmönnum frá háskólum og NAACP börðust fyrir endurupptöku málsins. Í dómsmáli um endurupptöku málsins árið 2014 gekk dómarinn lengra og ómerkti sakfellingu George Stinney Jr. vegna fjölda formgalla á ákæru- og dómsmeðferð. Segir breska blaðið the Guardian frá því að
George Stinney er næst yngsti einstaklingurinn til þess að vera dæmdur til dauða í Bandaríkjunum og sá yngsti á 20. öldinni, skv. yfirferð New York Times. Síðan 1973 hafa fleiri en 165 einstaklingar verið sýknaðir eftir að hafa setið í fangelsi eða verið teknir af lífi. Þrátt fyrir að aðeins um 15% Bandaríkjamanna séu svartir, eru þeir aðilar um helming ómerkingardóma.
Upplýsingastofnun um dauðadóm í Bandaríkjunum, Death Penalty Information Center, áætlar að 1.518 manns hafi verið tekin saklaus af lífi í Bandaríkjunum. Segir á vefsíðu þeirra að óalgengt sé að lögmenn eyði tíma sínum í mál látinna einstaklinga – enda væri það á kostnað mála þeirra sem enn er hægt að bjarga frá óréttlátum dauða eða fangelsisvist.
Aftaka bandarískra ungmenna var ekki aflögð fyrr en með dómi hæstaréttar árið 2005.