„Það ætti aldrei að klappa hundi sem er tjóðraður án eiganda. Það er mikilvægt að bæði fullorðnir og börn séu ekki að nálgast hunda án leyfis og alls ekki eftirlitslausa hunda,“ segir Freyja Kristinsdóttir hundaþjálfari, dýralæknir og formaður félags ábyrgra hundaeigenda.
Í síðustu viku kom upp atvik þar sem kona klappaði tjóðruðum hundi var bitin illa í andlitið og þurfti í kjölfarið að gangast undir aðgerð. Hundurinn var einsamall og bundinn við staur við Vesturgötu sem er samkvæmt hundasamþykkt Reykjavíkur bannað.
Eðlileg varnarviðbrögð
„Flestir hundar upplifa mikið óöryggi séu þeir bundnir einir. Þeir eru án eiganda og geta ekki flúið ef þeir verða hræddir. Það eru eðlileg varnarviðbrögð að urra, gelta, glefsa og bíta. Í aðstæðum sem þessum er bit ekki óeðlileg hegðun og ekki hundinum að kenna. Eigandinn gerir mistök að skilja hundinn eftir í þessum aðstæðum og manneskjan sem kemur að gerir einnig mistök,“ segir Freyja. Hún leggur áherslu á að umræðuna um þessi málefni vanti sárlega hérlendis.
„Erlendis veit fólk þar frekar að það má alls ekki klappa ókunnugum hundum, hvað þá án leyfis og ef þeir eru einir. Fólk hérlendis sendir gjarnan börnin sín að klappa tjóðruðum hundum sem eru einir. Fólk bara veit ekki að þarna er klárlega slysahætta.“
„Það er svo stutt í það hjá íslendingum að sökinni sé varpað á hundinn. Oft er strax farið að tala um að aflífa dýrið sem sýnir í raun bara sín eðlilegum varnarviðbrögð. Það vantar mikið fræðslu í kringum hundaatferli meðal fólks. Hundaeftilitið hefur gefið það út að þeir ætli að sinna fræðslu og það eru greiddar tugir milljóna á ári til þeirra en það hefur ekkert borið á þeirri fræðslu.“
Ekki klappa beint á kollinn
Freyja segir mikilvægt að fólk biðji alltaf eigandann um leyfi áður en hundinum er klappað. Einnig skipti máli hvernig dýrið sé nálgast. „Fólk áttar sig ekki á að það er oft ógnandi fyrir hundinn að ókunnugur klappar á kollinn á hundinum. Það á að byrja á að leyfa hundinum að þefa að höndunum og meta svo hvort hundurinn hafi áhuga á að heilsa þér. Ekki elta hann ef hann fer undan. Yfirleitt kemur hundurinn nær ef hann vill láta klappa sér. Þá er best að byrja á að klappa á bringu, hnakka eða bak til að byrja með.“
Aðspurð um hvort einhverjar tegundir séu líklegri til að bíta en aðrar svara hún. „Allir hundar, óháð tegund geta bitið þó það er munur á milli tegunda. Sumir flýja frekar ef þeir eru hræddir en aðrir fara frekar í árás. Það getur verið munur á milli tegunda en það er komið slæmt orð á vissar tegundir sem á ekki við rök að styðjast. Það er oft tengt fréttaflutning. Það er oft mynd sett af stærri hundum svo sem Husky eða Rottweiler þegar hundur bítur. Þá fer fólk að tengja bitið við þessa ákveðnu tegund en fréttin var kannski um hund af allt öðru kyni. Oft kemur ekki fram tegund hunds þegar hann bítur eins og í fréttinni í síðustu viku.“
Freyja segir þetta virka í báðar áttir og geti líka gefið til kynna að fjölskylduhundar í kvikmyndum eins og til dæmis Labrador séu mun meinlausari en aðrar tegundir þegar allir hundar geta bitið upplifi þeir sig óörugga. „Eigandinn þarf að skilja hvað hundurinn þolir og hvað hundurinn sér sem ógn. Það getur verið genatískt eða tengt því hvað hundurinn hefur upplifað áður.“ Freyja biður fólk að hafa þessi atriði í huga og klappa alls ekki hundum sem eru einir á ferð eða án leyfis eigandans.