Bíll sem var notaður í veiðiferð í Miðfjarðará lenti ofan í vatninu líkt og sjá má á mynd sem veitingamaðurinn Nuno Alexandre Bentim Servo birti á Facebook-síðu sinni.
Í samtali við DV sagði Nuno að ekki væri um sinn bíl að ræða, heldur hefði ónefndur eigandi lent í þessu. Hann segir þó að atvikið hafi verið mjög saklaust.
Þeir ætli þó ekki að láta þetta skemma ferðina og ætla að halda ótrauðir áfram við veiðar. Nuno segir að bíllinn sé óökuhæfur og að líklega sé vél bílsins ónýt.
Nuno viðurkennir að sjálfur hafi hann lent í þessu tvisvar, þess vegna hafi hann ákveðið að deila myndinni. Hann segir það sérstaklega svekkjandi að lenda í þessu þegar maður á eftir að fá sopa af áfengi.
„Þetta er leiðinlegt, það versta við þetta þegar að ég lenti í þessu var að maður var ekki búinn að fá sér dropa af áfengi.“
Atvik þetta minnir óneitanlega á kvikmyndina Síðasta Veiðiferðin sem er sýnd í kvikmyndahúsum um þessar mundir. Í þeirri mynd gerast hlutir sem eru verulega líkir þessu.