fbpx
Miðvikudagur 07.maí 2025
Fréttir

Hvorki Rauði krossinn né Slysavarnafélagið Landsbjörg hyggjast hætta aðkomu sinni að Íslandsspilum

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 14. júní 2020 18:00

Hátt í 700 Íslendingar eru hugsanlega spilafíklar en tæplega sex þúsund glíma við verulegan spilavanda. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Spilakassar er sú tegund fjárhættuspila sem flestir spilafíklar ánetjast. Hvorki Rauði krossinn né Slysavarnafélagið Landsbjörg hyggjast hætta aðkomu sinni að Íslandsspilum sem reka fjölda spilakassa. Formaður SÁÁ telur að rekstri spilakassa verði brátt sjálfhætt því öll spilun sé á leið á netið.

Spilakassar eru það fjárhættuspil sem er mest ávanabindandi, þrisvar til fjórum sinnum meira ávanabindandi en til að mynda póker og íþróttaveðmál,“ segir Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn.

Frekar í góðgerðarstarf en til einkaaðila

Spilakassar hér á landi eru reknir af tveimur aðilum; Íslandsspilum og Happdrætti Háskóla Íslands. Íslandsspil eru í eigu Rauða kross Íslands (64%), Slysavarnafélagsins Landsbjargar (26,5%) og SÁÁ (9,5%). Öllum spilakössunum var lokað þann 20. mars vegna COVID-19 en byrjað var að opna kassa aftur snemma í maí. Íslandsspil og HHÍ hafa leyfi til rekstursins frá dómsmálaráðuneytinu. Ýmsir hafa bent á að þetta sé aðferð stjórnvalda til að tryggja framgang þeirra verkefna sem eigendur Íslandsspila starfa að og betur fari á því að ágóði af rekstri spilakassa renni til góðgerðarmála en einkaaðila.

Spilafíklar voru meira með fjölskyldunni

„Við fengum símtöl frá fjölda aðstandenda og ættingja spilafíkla sem urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar spilakassarnir voru opnaðir aftur. Það var áberandi hversu miklar breytingar urðu á lífi fjölda spilafíkla meðan kassarnir voru lokaður. Ættingjar sögðu þá eyða meiri tíma með fjölskyldunni og vinnuveitendur sögðu spilafíkla bæði mæta betur í vinnuna og biðja síður um að fá launin fyrirfram. Nú dugðu þau bara út mánuðinn þegar ekki var verið að eyða þeim í spilakassana,“ segir Alma. Tæp 86% svarenda vilja að spilakassar og spilasalir verði lokaðir til frambúðar, samkvæmt niðurstöðu könnunar sem Gallup gerði fyrir Samtök áhugamanna um spilafíkn, SÁS. Niðurstöður könnunarinnar sýna að flestir nota spilakassa sjaldan og aðens 0,3% nota þá að staðaldri.

ASÍ styður baráttu gegn spilakössum

ASÍ er meðal þeirra sem hafa tekið undir baráttu Samtaka áhugafólks um spilafíkn og eftir að niðurstöður könnunarinnar voru kynntar sendi ASÍ frá sér yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars: „Þeir (spilakassarnir) eru í raun keyrðir áfram af þeim sem eiga við spilafíkn að stríða með öllum þeim vanda sem fylgir, félagslega og fjárhagslega. Það er því samfélagslega mikilvægt að taka á málinu og samkvæmt fyrrnefndri skoðanakönnun er þjóðin sammála því. Spilafíkn er erfiður sjúkdómur sem kemur hart niður á lífsgæðum þeirra sem haldnir eru fíkninni og fjölskyldum þeirra. Alþýðusamband Íslands stendur með Samtökum áhugafólks um spilafíkn í baráttu þeirra gegn spilakössunum.“

Sækja í spilakassana

Hátt í 700 Íslendingar eru hugsanlegir spilafíklar en tæplega sex þúsund manns eiga við verulegan spilavanda að stríða. Þetta kemur fram í könnun sem Daníel Þór Ólason, prófessor í sálfræði, gerði fyrir dómsmálaráðuneytið árið 2017 en hann hefur rannsakað spilafíkn um árabil. Þetta er nýjasta íslenska könnunin á þessu sviði. Niðurstöður Daníels benda til að 3,5% karla og 1,1% kvenna eigi við spilavanda að stríða, flestir séu aðeins með grunnskólapróf, lágar tekjur og á aldrinum 18-25 ára. Spilakassar er sú tegund peningaspila sem flestir í þessum hópi spila.

Leita til stjórnvalda

Landsbjörg hefur það ekki á dagskrá að gefa frá sér aðild sína að Íslandsspilum og segir Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, að þau muni áfram vinna að ábyrgri spilun á þeim vettvangi með öðrum eigendum. Hann bendir á að Íslandsspil hafi margoft hafið máls á því við stjórnvöld með hvaða hætti hægt sé að gera spilun á Íslandi ábyrgari en til þess að af slíku geti orðið þurfi stjórnvöld að sjá um þá framkvæmd. Talið er að margir milljarðar króna renni úr landi á ári hverju í gegnum netspilun og telur Þór að lokun spilakassa á Íslandi myndi eingöngu auka netspilun.

Bann læknar ekki fíknina

Þór segir að Samtök áhugafólks um spilafíkn vinni að göfugum markmiðum af hugsjón og því beri að fagna. „Saman ættum við að geta þrýst harðar á að spilun á Íslandi verði gerð ábyrgari með leiðum sem þegar hafa gefið góða raun á öðrum Norðurlöndum. Hins vegar er allur málflutningur þeirra um að verið sé að fórna fólki með spilafíkn fyrir skjólstæðinga eigenda Íslandsspila ákaflega ómaklegur. Slæmur fyrir sjálfboðaliða samtakanna og enn verri fyrir skjólstæðinga þeirra. Ég veit ekki betur en að margir skjólstæðingar SÁÁ leiti þangað eftir aðstoð vegna fíknar í hluti sem lengi eða um alla tíð hafa verið bannaðir. Það að banna spilakassa læknar ekki spilafíkn. Því miður.“

Tekjufall þegar kössunum var lokað

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segir ekki standa til að hætt verði aðkomu að rekstri spilakassa. „Þetta er mjög mikilvæg fjáröflun fyrir félagið og sést það vel á því að nú þegar spilakassar voru lokaðir í COVID-faraldrinum með tilheyrandi tekjufalli hjá Íslandsspilum höfum
við þurft að grípa til aðgerða meðal annars með fækkun stöðugilda og endurskipulagningu verkefna. Það er afskaplega erfitt enda verkefnin brýn. Það er ekki kappsmál í sjálfu sér fyrir Rauða krossinn að starfrækja spilakassa en hefur verið mikilvæg fjáröflun fyrir félagið og alveg ljóst að það þarf fjármagn til að halda úti starfsemi félagsins,“ segir hún.

Samdráttur í tekjum af spilakössum

Kristín tekur fram að rekstur Íslandsspila byggi á gömlum grunni og Rauði krossinn hafi leitað ýmissa leiða til að styrkja aðra fjáröflun þar sem tekjur af Íslandsspilum hafi farið minnkandi með hverju árinu, til dæmis með Mannvinum Rauða krossins og mánaðarlegum styrktaraðilum. „Ef fram fer sem horfir munu tekjur halda áfram að dragast saman, enda þeir sem taka þátt í spilunum margir hverjir farnir að spila á netinu. Rauði krossinn og aðrir eigendur Íslandsspila hafa um árabil kallað eftir breytingu á lagaumhverfi happdrættismarkaðarins. Hugnast okkur best að fara svokallaða norrænu leið, þar sem eitt fyrirtæki rekur spilakassa, lottó, getraunir og skafmiða. Með þessu móti er hægt að bjóða upp á skráningu þeirra sem spila og spilakort, hægt að setja þak á hversu mikið er hægt að spila. Það er vilji eigenda Íslandsspila að þessi leið verði farin,“ segir Kristín. Aðspurður hvort SÁÁ ætli að draga sig út úr rekstri spilakassa segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ: „Það má reikna með því að rekstri spilakassa verði sjálfhætt áður en langt um líður. Happdrætti, spilun og veðmálastarfsemi er öll á leið inn á netið.“

Þessi grein birtist fyrst í helgarblaði DV 6. júní 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Hanna Katrín segir leiðréttinguna löngu tímabæra og þjóðina eiga skýlausan rétt á henni

Hanna Katrín segir leiðréttinguna löngu tímabæra og þjóðina eiga skýlausan rétt á henni
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Börn í hópslagsmálum í Breiðholti og skotvopnum stolið í Kópavogi

Börn í hópslagsmálum í Breiðholti og skotvopnum stolið í Kópavogi
Fréttir
Í gær

Rússneskir hermenn falla í stríðum straumum – Ný þróun hefur breytt vígvellinum

Rússneskir hermenn falla í stríðum straumum – Ný þróun hefur breytt vígvellinum
Fréttir
Í gær

Sigmar um auglýsingar SFS – „Eitt fallegasta sjálfsmark sem hefur verið skorað á þessari öld“

Sigmar um auglýsingar SFS – „Eitt fallegasta sjálfsmark sem hefur verið skorað á þessari öld“
Fréttir
Í gær

Segir vinnubrögð samskiptaráðgjafa hafa ýtt bróður sínum í sjálfsvíg – ,,Við fáum aldrei manninn til baka. Við ætlum að hreinsa mannorðið hans“

Segir vinnubrögð samskiptaráðgjafa hafa ýtt bróður sínum í sjálfsvíg – ,,Við fáum aldrei manninn til baka. Við ætlum að hreinsa mannorðið hans“