Veitinga- og skemmtistaðir eiga að loka klukkan 23:00. Lögreglan lokaði veitingahúsi í miðbænum rúmlega hálf tvö í nótt. Rekstur var enn í gangi en eigandi staðarins taldi sig geta verið með einkasamkvæmi á barnum eftir lokun þar sem hann átti afmæli. Lögreglan lokaði staðnum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Um hálf tíu í gærkvöldi var tilkynnt um þrjá menn í annarlegu ástandi að slást í miðbænum. Einn maðurinn er sagður hafa verið að ógna öðrum með eggvopni. Mennirnir fóru ekki að fyrirmælum lögreglu á vettvangi. Þeir voru handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Þó nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi grunaðir um akstur bifreiðar undir áhrifum vímuefna.
Bifreið var stöðvuð í hverfi 110 um átta í gærkvöldi. Ökumaðurinn var að nota farsíma við akstur og einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur án gildra ökuréttinda.
Frá klukkan fimm í gær til fimm í nótt voru 122 mál skráð hjá lögreglu og þar af voru rúmlega 25 mál vegna afskipta af hávaða.