fbpx
Laugardagur 03.maí 2025
Fréttir

Dularfull mannshvörf á Íslandi – fólk sem hefur horfið án nokkurra skýringa

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 14. júní 2020 20:00

Gjarnan er leitað að týndu fólki í hrauni og gjótum. Til að mynda var snemma leitað að Guðmundi Einarssyni, sem Guðmundar- og Geirfinnsmálið var kennt við, í gjótu í Hafnarfjarðarhrauni. MYND/EYÞÓR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mannshvarf er skilgreint sem atvik þar sem einstaklingur hverfur, með óútskýrðum hætti. Lögreglan fær reglulega tilkynningar um horfna einstaklinga. Þegar lögreglan hefur eftirgrennslan að þessum einstaklingum koma þeir yfirleitt í leitirnar einum til tveimur sólarhringum eftir að tilkynning berst. Í einhverjum tilfellum ber eftirgrennslan ekki árangur.

Aðstoð frá björgunarsveitum

Runólfur Þórhallsson, formaður kennslanefndar og aðstoðardeildarstjóri í greiningardeild ríkislögreglustjóra, segir að þegar lögreglu berst tilkynning um mannshvarf hefjist rannsókn, sem er á forræði lögreglustjóra þess umdæmis sem fær tilkynninguna. „Aðstæður geta auðvitað verið mjög mismunandi en í upphafi hvers máls er unnið með þær vísbendingar sem berast og eins stundar lögreglan sjálfstæða upplýsingaöflun. Iðulega er leitað aðstoðar björgunarsveita sem bætast þá við mannafla lögreglu og hafa björgunarsveitarmenn í gegnum árin aflað sér bæði mikillar reynslu við leit að týndu fólki, og eins menntað sig á því sviði. Á þessu stigi málsins kemur kennslanefndin ekki að rannsóknum mála, nema þá til að veita upplýsingar og ráðleggingar um framvindu hvers máls fyrir sig hvað varðar staðfest kennsl,“ segir Runólfur.

Tannlæknar og DNA-sérfræðingar

„Eitt af því sem lögreglan gerir í mannshvarfsmálum er að fylla út samræmt, alþjóðlegt form sem er útbúið af Interpol. Það er gert því sum mannshvarfsmál teygja anga sína til annarra landa. Eyðublaðið er mjög ítarlegt og markmiðið er að safna sem bestum upplýsingum. Það er þá fyrst sem kennslanefnd ríkislögreglustjóra kemur sem stoðdeild inn í rannsókn lögreglu. Þegar líkamsleifar finnast aðstoðar kennslanefnd lögregluembættin við að rannsaka það sem finnst, með það að markmiði að staðfesta kennsl viðkomandi. Innan kennslanefndarinnar eru réttarlæknir, tannlæknar og DNA-sérfræðingar og sérfræðikunnátta þessara aðila nýtist vel við þessar rannsóknir,“ segir Runólfur.

Elsta málið á skrá frá 1930

Runólfur segir að eitt af verkefnum kennslanefndarinnar sé að halda utan um svokallaða horfinnamannaskrá. „Í dag eru 210 nöfn á þeirri skrá. Elsta málið á þeirri skrá er frá 1930. Sökum þess að staðfestar upplýsingar og rannsóknargögn liggja ekki fyrir í öllum eldri mannshvarfsmálum, má álykta sem svo að málin séu mun fleiri, ef horft er til áranna fyrir 1930. Öllum þessum málum er haldið opnum, því undanfarin ár hafa komið upp mál þar sem hægt hefur verið að loka gömlum málum með DNA-rannsókn og veita fjölskyldum kærkomnar staðfestar upplýsingar. Auk þessarar skrár um mannshvörf á Íslandi er kennslanefndin með upplýsingar um 10 einstaklinga sem hafa horfið erlendis og erlend lögregluyfirvöld stjórnað rannsókn á. Elsta málið þar er einnig frá 1930,“ segir hann.

Ástæður hvarfa misjafnar

Ástæður mannshvarfa eru misjafnar. Þau getur borið að þannig að einstaklingur lætur sig hverfa, í lengri eða skemmri tíma. Þau geta einnig komið til vegna slysa eða sjálfsvíga og verða þau þá með þeim hætti að einstaklingur fellur í sjó, vatn eða gjótu. Þá geta mannshvörf einnig stafað af mannavöldum og hafa að minnsta kosti fimm óupplýst mannshvörf verið rannsökuð sem manndrápsmál á Íslandi.

Hér verður farið yfir nokkur mannshvörf á Íslandi.

Fréttablaðið 1. maí 2020

Sean Bradley

Fréttablaðið greindi frá því 1. maí síðastliðinn að fiðluleikarinn Sean Bradley hefði horfið sumarið 2018. Hann hafði spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands í áratugi, ásamt því að kenna við Tónlistarskólann í Hafnarfirði um árabil. Hvarf Seans bar til með vægast sagt dularfullum hætti. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafði hann mælt sér mót við vinkonu sína í júní 2018. Þau ætluðu að keyra saman til Reykjavíkur og fara í kirkju. Hann mætti hins vegar ekki og þrátt fyrir ítrekuð símtöl náði hún ekki í hann. Ekkert spurðist til hans um tíma og kom sonur hans meðal annars til Íslands til að heimsækja hann. Sonurinn fann hins vegar föður sinn hvergi. Sean sagði síðan við vini sína á samfélagsmiðlum að hann væri kominn til Spánar. „Það fannst okkur öllum mjög skrýtið því hann var ekki fyrir að fljúga. Hann vildi helst ekki fara upp í flugvél,“ segir vinkonan. Sean er að sögn vina það flughræddur að það hafi haldið honum frá því að heimsækja fjölskyldu sína á Bretlandseyjum. Sean er með gigt og hreyfiskertur sökum þess. Hann gat einungis gengið stuttar vegalengdir án stuðnings. „Svo hvarf hann bara af Facebook og við höfum ekki heyrt neitt,“ segir hún. Rannsókn á hvarfi hans stendur enn yfir.

 

Fréttablaðið.is 23. janúar 2020

Jón Ólafsson, pabbi Birgittu

Þann 23. janúar á þessu ári greindi lögreglan frá því að tekist hefði að bera kennsl á höfuðkúpu Jóns Ólafssonar, sem hvarf á aðfangadag árið 1987. Talið var að hann hefði fallið í Sogið. Höfuðkúpan fannst svo þann 3. október 1994, en ekki var hægt að bera kennsl á hana fyrr en nú. Jón var faðir Birgittu Jónsdóttur, skálds og fyrrverandi kapteins Pírata. „Það er rosalega mikill léttir að fá að loka þessu, grafa hann og einhvern veginn fá fullkomna staðfestingu á því að hann sé í raun og veru dáinn. Þó svo að maður viti það á einhverju leveli, að þá er það ekki alveg raunverulegt þangað til maður fær líkamlega staðfestingu,“ sagði Birgitta í samtali við Fréttablaðið.

 

Morgunblaðið 28. janúar 1994

Júlíus Karlsson og Óskar Halldórsson

Tveir unglingspiltar, 13 og 14 ára, hurfu frá Keflavík 26. janúar árið 1994. Þeir Júlíus Karlsson og Óskar Halldórsson skruppu út og sáust aldrei aftur. Lögreglan rannsakaði málið af miklum krafti en þeir fundust aldrei. Vísbendingar bárust um hvar þá væri að finna, meðal annars voru þeir sagðir hafa sést á Suðurlandi og í bænum. Sporhundur leitaði þeirra og endaði slóðin alltaf við olíutanka niðri við sjó. Miklar kjaftasögur spruttu upp um hvarf þeirra, en þrátt fyrir mikla leit hefur aldrei komið í ljós hvað varð um þá.

 

DV 12. janúar 2011

Matthías Þórarinsson

Matthías Þórarinsson hvarf rétt fyrir jól 2010. Matthíasi var lýst sem sérlunduðum einfara sem bjó í gömlum Rússajeppa. Jeppinn fannst í janúar 2011, brunninn, skammt frá malarnámum á Kjalarnesi. Matthías var ekki í bílnum og engar vísbendingar að finna. Móðir hans, Þórgunnur Jónsdóttir, hefur ekki misst trúna á að hann skili sér. Hún segir erfitt að vita af hverju hann fór, en hefur enga trú á að hann hafi viljað binda enda á líf sitt. „Þetta hefur verið erfitt en ég veit að hann kemur,“ segir Þórgunnur og lýsir syni sínum sem skemmtilegum. Hún segir samband þeirra hafa verið afar gott, en hún var nýflutt á Kjalarnes þegar Matthías hvarf. Hann bjó í Rússajeppanum fyrir utan. Samkvæmt lögum er Matthías talinn af í dag, þar sem meira en þrjú ár eru liðin frá hvarfi hans.

Nöfn nokkurra sem hafa horfið á síðustu áratugum:

Guðmundur Einarsson, horfinn 27. janúar 1974, sást síðast fyrir utan Alþýðuhúsið í Hafnarfirði. Hvarf Guðmundar var talið hafa borið að með saknæmum hætti, fimm menn voru dæmdir fyrir að hafa bannað Guðmundi, árið 1980. Mennirnir voru dæmdir að ósekju og málið því tekið upp mörgum árum seinna og fimmmenningarnir hreinsaðir af fyrri dómum.

Bjarni Matthías Sigurðsson, 79 ára trésmiður, hvarf 25. ágúst 1974, er hann var í berjamó skammt frá Hólahólum á Snæfellsnesi með dóttur sinni og tengdasyni. Hann fór á undan samferðafólki sínu í átt að bíl þeirra sem lagt var skammt frá þjóðveginum, en var hvergi sjáanlegur þegar þau komu um 15 mínútum seinna. Sporhundur rakti slóð Bjarna frá þeim stað er þau höfðu lagt bifreið sinni og upp á aðalveginn. Hrúga af berjum fannst við vegarkant skammt frá þeim stað þar sem Bjarni sást síðast.

Geirfinnur Einarsson, horfinn 19. nóvember 1974. Sást síðast fara á fund við ókunnugan mann frá heimili sínu í Keflavík. Fundurinn var talinn tengjast spíraviðskiptum, fimm menn voru dæmdir fyrir að hafa banað Geirfinni, árið 1980. Mennirnir voru dæmdir að ósekju og málið var tekið upp mörgum árum seinna og þeir hreinsaðir af fyrri dómum. Þrátt fyrir sama föðurnafn voru þeir Geirfinnur og Guðmundur ekki skyldir, en gjarnan er talað um mál þeirra saman sem Guðmundar- og Geirfinnsmálið.

Sigurður Þórir Ágústsson, horfinn 5. febrúar 1975, sást síðast fyrir utan vita á Reykjanesi.

Sturla Valgarðsson, horfinn 29. maí 1977. Sást síðast á Blönduósi.

Valgeir Víðisson, horfinn 19. júní 1994. Sterkur grunur var um að honum hefði verið ráðinn bani þá um nóttina.

Hörður Björnsson, horfinn 14. október 2015. Sást síðast á Laugarásvegi og var 25 ára þegar hann hvarf.

Þessi grein birtist fyrst í helgarblaði DV 6. júní 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Brotaþoli hópnauðgunar í Vesturbæ stígur fram og gagnrýnir umræðuna um málið

Brotaþoli hópnauðgunar í Vesturbæ stígur fram og gagnrýnir umræðuna um málið
Fréttir
Í gær

Snærós miðlar af reynslu sinni – „Ég ætla að kenna allt sem ég kann og það er töluvert get ég sagt ykkur“

Snærós miðlar af reynslu sinni – „Ég ætla að kenna allt sem ég kann og það er töluvert get ég sagt ykkur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óttast að nágranninn færi heita pottinn – „Er ég á einhvern hátt ósanngjarn ef ég vil ekki horfa á annað fólk baða sig af svölunum hjá mér?“

Óttast að nágranninn færi heita pottinn – „Er ég á einhvern hátt ósanngjarn ef ég vil ekki horfa á annað fólk baða sig af svölunum hjá mér?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurður Kári fór alltaf í kröfugöngu á 1. maí en segir skugga liggja yfir deginum í ár – „Með ólíkindum“

Sigurður Kári fór alltaf í kröfugöngu á 1. maí en segir skugga liggja yfir deginum í ár – „Með ólíkindum“