Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir frá því þegar ung kona hringdi í hana. Konunni vantaði að koma bílnum sínum úr bílastæðahúsi í miðborg Reykjavíkur. Hún var með lítið barn sem var orðið óvært og það var liðið fram á kvöld. Kolbrún segir frá þessu í skoðanapistli á Vísi.
Flokkur fólksins kallar eftir umræðu í borgarstjórn þann 16. júní næstkomandi um aðgerðir til að gera bílastæðahús aðgengilegri, einfaldari og meira aðlaðandi og skilvirkari.
„Borgin hefur byggt mörg bílastæðahús væntanlega með það að markmiði að þau verði nýtt sem best. Nýting þeirra er hins vegar alls ekki góð,“ segir Kolbrún. „Ef notkun bílastæðahúsa er eins lítil og raun ber vitni þá ætti það ekki að valda miklum kostnaði þótt þau (eitt eða fleiri) verði gjaldfrjáls á nóttunni. Slík tilhögun myndi eflaust skila samfélaginu meiri ábata en sá 5-10 m. kr. tekjumissir sem borgin kann að verða af.“
Kolbrún segir frá því þegar ung kona hringdi í hana um daginn.
„[Hún] vildi vita hvort borgarfulltrúi gæti aðstoðað hana við að ná sambandi við Reykjavíkurborg/bílastæðasjóð þar sem hún gat ekki náð bíl sínum út úr bílastæðahúsi. Þetta var eftir lokun þjónustuvers. Þegar hún hafði komið í bílastæðahúsið voru slárnar uppi og því ekki hægt að fá miða. Þegar konan mætti aftur til að ná í bílinn höfðu slárnar verið settar niður og engin leið var fyrir konuna að aka bílnum út þar sem hún var ekki með miða til að opna slárnar. Þess utan hafði hún gleymt greiðslukorti sínu heima og gat því ekki keypt „týndan miða“ sem kostar 1000 krónur. Konan hafði hringt í þjónustuver Reykjavíkurborgar en vegna þess að liðið var fram á kvöld tók símsvari við. Í símsvara sagði að sé um neyðartilvik að ræða skuli hringt í 112. Aðra aðstoð sagðist konan ekki sjá að boðið væri upp á lendi fólk í erfiðleikum sem þessum. Konan var með lítið barn sem var orðið óvært og var hún því orðin nokkuð uggandi.“
Kolbrún segir að ef beðið er lengur á línu þjónustuversins, fram yfir tilkynninguna um að hringja í 112 í neyðartilvikum, segir í símsvara að það sé hægt að hafa samband við bilanadeild. Einnig er hnappur á greiðsluvélum þar sem stendur „aðstoð/help“.
„Hvorugra þessara hjálparúrræða eru nægjanlega sýnileg eða skýr. Búið er að benda bílastæðasjóði á þessa vankanta og mikilvægi þess að hafa leiðbeiningar um hvernig nálgast skuli aðstoð með skýrari hætti.“
Í pistli sínum fer Kolbrún yfir fleiri leiðir sem hún telur geta gert bílastæðahús aðgengilegri, einfaldari og meira aðlaðandi.
„Bygging bílastæðahúsanna var veruleg fjárfesting og það er því öfugsnúið að reyna ekki að nýta þau sem best. Það er rökleysa að halda því fram að bílastæðasjóður muni tapa tekjum þótt boðið sé upp á fáeinar ókeypis klukkustundir í bílastæðahúsi eða næturopnun,“ segir Kolbrún. Þú getur lesið pistillinn í heild sinni hér.