„Erlend netleikjafyrirtæki skila engum tekjum til mannúðar,- íþrótta- eða hjálparstarfs á Íslandi. Þessari þróun má snúa við með því að bjóða upp á innlenda netspilun,“ segir í yfirlýsingu frá eigendum Íslandsspila sem er annað tveggja fyrirtækja á Íslandi sem reka spilakassa. Íslandsspil er í eigu Rauða krossins, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og SÁÁ. Hitt fyrirtækið er Happadrætti Háskóla Íslands.
Mikið hefur verið fjallað um spilafíkn í tengslum við spilakassa að undanförnu. Eigendur Íslandsspila senda yfirlýsinguna frá sér vegna þeirrar umfjöllunar og vilja hvetja til þess að svokölluð spilakort verði tekin upp hérlendis til að minnka líkur á að tekjur vegna fjárhættuspila fari úr landi. Þessi leið hafi verið farin á hinum Norðurlöndunum með góðum árangri.
„Íslandsspil hafa talað fyrir því að fara sömu leið og hin Norðurlöndin, að tekið verði upp aðgangskort sem hjálpar fólki í spilavanda að takmarka spilaútgjöld. Um er að ræða spilakort sem allir þurfa að hafa til að geta tekið þátt í peningaspilum. Það nýtist til að halda fjárhæð spilunar innan ákveðinna marka sem spilarinn ákveður fyrirfram og getur ekki breytt strax. Hann getur líka lokað fyrir aðganginn. Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa mælt með upptöku á slíku spilakorti.
En Íslandsspil geta ekki byrjað með spilakort eitt og sér. Slíkt kort virkar ekki nema það nái yfir öll peningaspil, einnig löglega innlenda netspilun. Það þarf því líka að ná til spilakassa Happdrættis Háskóla Íslands, lottó og getrauna. Þannig virkar þetta á hinum Norðurlöndunum og ekkert því til fyrirstöðu að svo verði hér á landi,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er tilktekið að næsta skref í þessari vegferð sé að taka samtalið með dómsmálaráðherra.