Sökum COVID-19 faraldurs hafa líkamsræktarstöðvar landsins verið lokaðar undanfarna mánuði sökum samkomubanns. Engu að síður halda margar þeirra áfram að innheimta mánaðargjöld frá viðskiptavinum sínum, þó þeim sé ófært að nýta sér áskrift sína á meðan á samkomubanni stendur. Samkvæmt Breka Karlssyni, formanni Neytendasamtakanna, er réttur viðskiptavina til endurgreiðslu vegna þessa tímabils skýr, þó þeim sé vissulega heimilt að semja við líkamsræktarstöðvarnar um annars konar bætur. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Lokað en rukka samt
„Það hafa margir komið að máli við okkur og bent okkur á það að í þessu öllu saman, án þess að geta notað þjónustu líkamsræktarstöðvarinnar, þá rukka þeir engu að síður þó það sé lokað,“ sagði Breki og bendir á að samningur við líkamsræktarstöð sé tvíhliða og feli meðal annars í sér að viðskiptavinur greiði mánaðargjöld, gegn því að fá þjónustu frá stöðinni. Um leið og annar aðilinn getur ekki efnt sinn hluta þá sé það harla sanngjarn að hinn aðilinn eigi engu siður að standa við sitt. „Þá er kominn brestur í samningssambandið og þeim er það bara ekki heimilt að rukka fyrir þjónustu sem er ekki veitt.“
Breki segir þennan skilning fá stoð í öllum þjónustukaupalögum. Rök líkamsræktarstöðva um fordæmalausar aðstæður í þjóðfélaginu hafi ekkert gildi í þessari stöðu nema sérstaklega hafi verið kveðið á um hana í skilmálum samninga, en Neytendasamtökin hafa skoðað samningsskilmála allra helstu líkamsræktarstöðva landsins og hvergi fundið ákvæði sem gætu átt við faraldinn sem gengur nú yfir heiminn.
„Og ef það er ekki tekið skilmerkilega fram í samningi þá er ekki hægt að skýla sér á bak við það“
Skylt að endurgreiða
Aðspurður hvort að forsendur neytendalaga í Evrópu og víðar séu ekki brostnar sökum stöðunnar og hreinlega ósanngjörn á tímum, svarar Breki að sama hver staðan er þá beri eftir sem áður að fylgja lögum. Af því sé ekki gefinn neinn afsláttur. „Nú held ég að ég verði að leiðrétta þig, ég er ekki sammála að neytendalög séu hrunin. Það má nú alveg deila um það hvort að lög séu sanngjörn eða ósanngjörn en svið þurfum samt að fara eftir þeim.“
„Líkamsræktarstöðvar mega náttúrulega bjóða fólki hitt og þetta og fólk má þiggja það boð,“ segir Breki. Slíkur sé réttur aðili að samningssambandi í samræmi við samningafrelsið sem gildir í samningarétti. „En geti þeir ekki þegið það með einhverjum hætti þá er þeim skylt að endurgreiða.“
Breki bendir á að þessi staða veiti fyrirtækjum vettvang til að sýna neytendum tilheyrandi virðingu og neytendur ættu að muna hverjir standa sig í stykkinu og hverjir ekki.
„Þetta er viðskiptasamband, þetta eru neytendur og fyrirtæki og án neytenda er ekkert fyrirtæki og við ætlum að muna það hvaða fyrirtæki gera vel við okkur núna og hvaða fyrirtæki svína á okkur.“
Mikið álag hjá Neytendasamtökunum
Margir hafa leitað til Neytendasamtakanna vegna líkamsræktarstöðva og fleiri mála tengdum Covid-19 faraldrinum. Málum hjá samtökunum hefur fjölgað um 70 prósent á milli ára og eru samtökin nú í þeirra stöðu að þeim mun líklega ekki ná að komast yfir öl mál sem þeim berast.
Þáttastjórnendur Bítisins báru undir Breka frásögn hlustanda sem greindi frá því að reikningur frá World Class vegna mánaðar þar sem lokað var sökum samkomubanns, sé þegar kominn í innheimtu hjá Modus. Viðkomandi hefur verið viðskiptavinur World Class í níu ár. Breki segir það ótrúlega hart að ráðast í slíka innheimtu á þessum tímum.
„Ótrúlega hart að eftir svona langan tíma að senda strax bara um leið reikninga í innheimtu. Fólk sem lendir í svona mun hætta í viðskiptum við þessi fyrirtæki. Mér finnst bara ábyrgðarhluti hjá stjórnendum og eigendum þessara fyrirtækja að sýna skynsemi, skilning og samúð“
Þó svo mörg fyrirtæki standi í ströngu þessa daganna þá megi ekki gleyma því að það gerir almenningur líka þar sem einn af hverjum fjórum á vinnumarkaði sé nú með skert vinnuhæfi, minnkað starfshlutfall eða hreinlega búið að missa vinnuna.
„Það má ekki gleyma því að það er ekki á það bætandi að vera með einhverja svona innheimtuhörku í sambandi sem á að vera svona fram og til baka“