Ragnar Bjarnason, einn ástsælasti dægurlagasöngvari þjóðarinnar, er látinn. Hann var 85 ára. Óhætt er að segja að Ragnar hafi verið einn þekktasti og vinsælasti tónlistarmaður landsins. Hann var sæmdur fálkaorðunni árið 2005 og hlaut heiðurslaun listamanna í fyrra. Ragnar lést á líknardeildinni í Kópavogi í gærkvöldi eftir skammvinn veikindi.
Raggi, líkt og hann var ávallt kallaður, fæddist í Reykjavík þann 22. september árið 1934. Raggi hóf feril sinn í tónlist sem trommuleikari en fyrsta platan þar sem mátti heyra söng hans var á plötum Tónika sem komu út árið 1954.
Raggi hélt kveðjutónleika í fyrra og þar var ferli hans lýst svo: „Raggi hefur staðið í framvarðarsveit íslenskrar tónlistar síðustu 70 ár en hann var aðeins 15 ára þegar hann settist við trommusettið í hljómsveit föður síns, Bjarna Böðvarssonar. Ekki leið á löngu þar til hann hóf að syngja með hljómsveitinni og síðan hefur Ragnar ekki slegið slöku við. Hann hefur flutt vinsælustu lög þjóðarinnar á hverjum áratug ferils síns svo það má með sanni segja að stór partur af íslensku tónlistarlífi hafi verið á hans herðum í gegnum tíðina.“
Í viðtali við DV árið 2014 fór Raggi um víðan völl. Hann greindi til að mynda frá því að hann hefði hafnað heimsfrægð á sínum tíma. „Einu sinni var mér boðið að koma í þátt Johnny Carson, en ég nennti ekki að standa í svoleiðis veseni. Ég er ekki með neina heimsfrægðardellu í mér. Ég vona auðvitað að öllum þeim sem þrá slíka frægð gangi vel, en menn verða að passa sig á því að frægðin geri þá ekki vitlausa, það er svo auðvelt að gera mistök í þessum bransa og menn verða að hafa reynda menn sér við hlið. Það sem skiptir mig máli er fólkið mitt; fjölskyldan, vinirnir, samstarfsfólkið og Ísland. Ég myndi ekki skipta á þeim fyrir heimsfrægð og auð,“ sagði Raggi þá.
Í því sama viðtali stóð ekki á svörum þegar hann var spurður um hvað hann væri stoltastur af. „Ég er stoltastur af börnunum mínum og barnabörnum, vinum mínum og fjölskyldu. Og Íslendingum. Ég er stoltur af því að vera hluti af þessari þjóð. Íslendingar eru framtakssamir og þeir eru duglegir, alveg óhræddir við að opna sig.“
Raggi lætur eftir sig eiginkonu, Helle Birthe Bjarnason, og þrjú börn: Bjarna Ómar Ragnarsson, Kristjönu Ragnarsdóttur og Henry Lárus Ragnarsson. Þá lætur hann eftir sig ellefu barnabörn. DV sendir ættingjum og vinum Ragnars innilegar samúðarkeðjur.