fbpx
Fimmtudagur 11.september 2025
Fréttir

Elín var niðurlægð af lögreglunni sem skellihló að henni: Nýbökuð móðir handtekin harkalega -„Mér leið ekki eins og manneskju“

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 9. janúar 2020 14:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir greindi frá alvarlegu lögregluofbeldi sem hún varð fyrir. Þetta gerði hún á samfélagsmiðlinum Twitter í kjölfar þess að Atli Jasonarson deildi reynslu sinni af lögregluofbeldi, sem fjallað var um í gær. DV ræddi við Elínu sem sagði blaðamanni frekar frá þessu ofbeldi.

Elín fór út á lífið í fyrsta skipti eftir barnsburð ásamt vinkonu sinni árið 2010. Þær fóru í miðbæ Reykjavíkur að skemmta sér, en ákváðu að fara heim er þær lentu í „leiðinda kalli“. Saman tóku þær leigubíl heim. Vinkona hennar var fyrri úr bílnum í Hafnarfirði, en Elín ákvað að fara úr bílnum í Garðabæ og labba seinasta spölinn sjálf. Það gerði hún til að melta atburði kvöldsins.

„Þegar ég er búin að labba í einhvern tíma kemur bíll með einhverju fólki sem vill bjóða mér far. Ég afþakka það, en það tók tíma að sannfæra þau. Ég sagðist bara vera góð og geta labbað heim og þá sögðust þau ætla að hringja á lögregluna, þau vildu ekki að ég myndi labba heim.

Nokkru síðar kemur lögreglubíll hjá Arnarneshæðinni sem veifar mér til sín. Ég fer bara að spjalla við þá. Þeir spyrja mig á hvaða ferð ég sé og ég svara náttúrulega að ég sé á leiðinni heim. Sjálf var ég ekki í góðu skapi eftir djammið og svo var eins og að þeir væru að svara erindi sem þeir nenntu ekki að svara. Þeir urðu strax bara frekar pirraðir og það fór ekkert vel í mig þannig að ég sagðist aftur bara geta labbað heim.“

Harkaleg handtaka fyrir litlar sakir

Lögreglumennirnir eiga að hafa reynt að sannfæra Elínu um að hún gæti ekki labbað heim, en á endanum sætt sig við að skilja við hana ef hún myndi gefa upp nafn og kennitölu. Hún neitaði því og var handtekin með dragbandi, eða plast-strappi. Það minnir óneitanlega á frásögn Atla Jasonarsonar sem segir það hafa verið afar heimskulegt af sér að gefa ekki upp nafn í sínu tilfelli. Elín tekur fram að hún hafi ekki verið meðvituð um að hún þyrfti að gefa lögreglu upplýsingar um nafn sitt.

Handtakan var mjög harkaleg að mati Elínar, en hún segist hafa verið marin í nokkra daga eftir hana. Hún segist hafa tilkynnt lögreglunni um að hana hafi verkjað í hendurnar vegna dragbandsins, en þeir hafi ekki ansað því. Elín tekur það einnig fram að lögreglumennirnir hafi sett sæti sín eins aftarlega og mögulegt var til að þrengja að henni, þrátt fyrir að hún hafi ekki sýnt af sér neina ógnandi hegðun.

Athlægi lögreglunnar

Elín segist ekki hafa fengið neinar góðar útskýringar á handtökunni. Hún var flutt á lögreglustöð í Kópavogi þar sem hún beið þess að tala við varðstjóra.

„Hann spurði mig hvort ég ætlaði ekki að vera samvinnufús, en þar sem að ég var pirruð og þreytt bullaði ég bara eitthvað nafn. Hann varð þá sjálfur önugur og þrjóskur og sagðist ætla að senda mig niður á Hverfisgötu.“

Þá segist Elín hafa verið flutt frá skrifstofu varðstjórans út af lögreglustöðinni, en á leiðinni út hafi verið hópur lögreglumanna sem hafi gert hana að athlægi sínu. Þá er Elínu sérstaklega minnisstæð ein lögreglukona sem ranghvolfdi augunum og skellihló og benti á hana.

„Ég var tekin af skrifstofunni og þá stóðu svona fjórar til fimm löggur sem voru bara að hæðast að mér og gerðu grín að mér. Mér þótti þetta mjög niðurlægjandi hvernig þau fóru með mig. Ein lögreglukonan benti á mig og skellihló að mér. Mér fannst þetta ekki í lagi og lét þau vita af því.“

Kvíðakast í fangaklefa

Elín var þá flutt á Hverfistgötu og aftur var sætinu hallað á hana, á meðan hana verkjaði vegna dragbandsins. Það þótti henni afar sérstakt

Á Hverfisgötu var Elín sett í fangaklefa og sagt að bíða til að geta talað við varðstjórann. Hún bað lögregluþjóninn um að geta beðið annars staðar, en hún var mjög hrædd við klefann. Elín segist hafa upplifað gríðarlega innilokunarkennd í klefanum og fengið kvíðakast, enda var hún í fyrsta skipti að fara frá barninu sínu sem var í pössun hjá móður Elínar. Þar af leiðandi segist hún ekkert hafa sofið þessa nótt.

„Ég bað um að fara ekki í klefann, en hann hnussaði bara, sagði að ég gæti sjálfri mér um kennt og hefði átt að hafa vit á því að hlýða. Hann ýtti mér inn og lokaði hurðinni, ég fór strax í panikk, bankaði á hurðina, vildi bara fá að tala við einhvern og fékk bara massíft kvíðakast. Ég kallaði, ég bankaði en ekkert gerðist. Mér leið ekki eins og manneskju þarna.“

„Ég dauðskammaðist mín“

Daginn eftir var Elínu hleypt út og henni sagt að ekkert yrði gert úr málinu, þá var klukkan orðin tvö eftir hádegi. Hún segist hafa verið handtekin á milli þrjú og fjögur um nóttina. Elín segist sjá eftir því að hafa ekki kvartað formlega yfir málinu á sínum tíma.

„Ég dauðskammaðist mín mjög lengi fyrir þetta, ég þorði bara ekkert niður í bæ fyrr en einu til tveimur árum seinna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Faðir Oscars ákærður

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Grænkerar verulega ósáttir við RÚV – „Ömurlega ófagmannlega unninn þáttur“

Grænkerar verulega ósáttir við RÚV – „Ömurlega ófagmannlega unninn þáttur“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Íbúar logandi hræddir eftir að barnaníðingur flutti í bæinn – „Til skammar“

Íbúar logandi hræddir eftir að barnaníðingur flutti í bæinn – „Til skammar“
Fréttir
Í gær

Kristrún stefnir að því að Halla megi ráða sér aðstoðarmann eins og ráðherrar fá – Ókeypis háskólanám verður bara fyrir fólk innan EES

Kristrún stefnir að því að Halla megi ráða sér aðstoðarmann eins og ráðherrar fá – Ókeypis háskólanám verður bara fyrir fólk innan EES
Fréttir
Í gær

Einn af hápunktum í íslenskum markaðsheimi

Einn af hápunktum í íslenskum markaðsheimi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flugumferðarstjórar fá ekki lengur að horfa á fótbolta eftir alvarlegt atvik í fyrra

Flugumferðarstjórar fá ekki lengur að horfa á fótbolta eftir alvarlegt atvik í fyrra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Samfylkinguna á rangri braut – „Það kemur mér virkilega á óvart“

Segir Samfylkinguna á rangri braut – „Það kemur mér virkilega á óvart“