„Börn verða ekki fullorðin nema að fá að takast á við lífið, gera mistök og greiða úr þeim, standa á eigin fótum,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri og margra barna faðir, í áhugaverðri grein í Morgunblaðinu í dag.
Grein Gísla ber yfirskriftina „Snjóruðningsforeldrar“ en í henni veltir hann fyrir sér hvort uppeldisaðferðir hafi breyst til hins verra á undanförnum árum og áratugum.
Gísli byrjar grein sína á að vísa í grein sem hann las í Morgunblaðinu fyrr á þessu ári.
„Greinin fjallaði sem sagt um það að foreldrar nú til dags ali upp börnin sín á þann hátt að þau lendi aldrei í mótbyr. Passa upp á að ekkert alvarlegt komi fyrir þau og ef það skyldi gerast þá leysa foreldrarnir úr málum barnanna, ekki börnin sjálf.“
Gísli segir að þetta gangi svo langt að til dæmis í Bandaríkjunum hafi foreldrar samskipti við framhaldsskóla eða háskóla barnanna vegna inntökuprófa. Þeir kæri jafnvel prófniðurstöður séu þær börnunum ekki þóknanlegar – og það þó börnin séu komin á þrítugsaldur.
„Þessu trúi ég alveg. Og ég hef eflaust gert eitthvað slíkt í þágu minna barna, þó ekki jafn svakalega klikkað og framangreint. En með þessu er verið að búa til aumingja. Ungt fólk sem þarf aldrei að taka ábyrgð á sér og sínu lífi. Ekki horfast í augu við afleiðingar þess að hafa til dæmis ekki lært nógu vel fyrir eitthvert mikilvægt próf og fengið „bara 8“ en ekki 9 í einkunn.“
Það er skoðun Gísla – og vafalítið margra annarra – að börn verði ekki fullorðin nema þau fái að takast á við lífið, gera mistök og standa á eigin fótum. Gísli segist telja að því miður hafi þetta aðeins aukist á undanförnum áratugum.
„Hef það á tilfinningunni. En kannski kemur þessi umræða alltaf upp öðru hvoru, með áratuga millibili, og það eru svona miðaldra kallar eins og ég sem finnst heimur versnandi fara. Vonandi. Við sem erum foreldrar höfum eflaust rutt smá snjó úr vegi barna okkar og svo sem í lagi á meðan þau hafa ekki þroska, vit og getu til að takast á við hluti sem koma upp á í lífinu. En hættum að búa til aumingja, leyfum börnunum að takast á við lífið, verða fullorðnir og ábyrgir einstaklingar. Annars verður enginn með viti til að taka við af okkur þegar við setjumst í helgan stein.“