Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður segir að ólöglegur innflutningur fólks til Íslands sé kominn úr böndunum. Hlufallslega, þ.e. miðað við höfðatölu, komi mun fleiri útlendingar ólöglega til landsins en til Danmerkur enda hafi Danir tekið upp vegabréfsskoðun og landamæraeftirlit þegar ástandið var orðið slæmt þar – nokkuð sem Einar telur að Íslendingar ættu að hugleiða.
Þetta kemur fram í grein Einars í Morgunblaðinu. Einar skrifar:
„Fyrstu tvo mánuði ársins sóttu 146 manns (svokallaðir hælisleitendur) um alþjóðlega vernd á Íslandi. Ef fram fer sem horfir verða það því nálægt þúsund manns
sem hingað koma, flestir í heimildarleysi. Þetta samsvarar því að meir en 14 þúsund hælisleitendur kæmu til Danmerkur á ári.
En raunin er sú að til Danmerkur hafa „aðeins“ komið tvö til þrjú hundruð manns á mánuði síðan 2016 og eitthvað rúmlega þrjú þúsund manns allt árið
2018. Ásóknin hingað er þannig margföld á við ásóknina í að flytjast til Danmerkur.“
Einar segir einfalt að sigta úr þann minnihluta sem eru raunverulegir flóttamenn en flestir úr þessum hópi komi frá öruggum löndum og hafi enga ástæðu til að flýja. Einar er mjög afdráttarlaus og skrifar:
„Hvers vegna beita Íslendingar ekki sömu ráðum og annars staðar hafa gefist vel til að koma í veg fyrir misnotkun útlendinga á velferðarkerfinu? Lögreglan veit hvaðan þeir
koma. Það þarf ekkert að skoða hvert einasta vegabréf. Í öðrum löndum eru vegabréf skoðuð við útganginn úr flugvélinni þegar sérstök ástæða þykir til. Veit dómsmálaráðherra ekki af vandanum? Er þá ekki ráð að kynna sér hvað nágrannaþjóðirnar hafa gert?“
Einar segir þennan vanda heimatilbúinn og stafa af barnaskap og skorti á rökhugsun. Hann átelur Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, fyrir að hafa gagnrýnt lögreglu fyrir að sinna skyldustörfum sínum þegar hælisleitendur mótmæltu á Austurvelli síðvetrar. Einar skrifar um Loga:
„Logi Einarsson er lifandi dæmi um einstakling sem hefur allt framangreint til að bera og meira til. Hann lætur sig ekki muna um að styðja lögbrot, en atyrða lögregluna fyrir að framfylgja lögunum. Hvergi í heiminum myndi ábyrgur flokksleiðtogi haga sér þannig. – Nýjasta krafan er að geðveilum umsækjendum verði ekki vísað úr landi, en útveguð spítalavist. Hvernig mundi sú vegferð enda ef hún spyrðist út? Svarið við spurningunni gerir að vísu kröfu um getu til rökhugsunar.“
Einar varar við því að í hópi þeirra sem hingað koma ólöglega sé að finna hættulegt fólk og hefur sérstakar áhyggjur af því að mafíustarfsemi festi hér rætur. Í lok greinarinnar segir Einar:
„Undir engum kringumstæðum má svo mafíustarfsemi ná að skjóta hér rótum. Okkar eigin handrukkarar eru hreinir kórdrengir í samanburði
við glæpasamtök eins og albönsku mafíuna.“