Páll Kr. Pálsson framkvæmdastjóri segir að desemberuppbótin svokallaða sé ekki beint góð aðferð til að bæta kjör fólks. Páll fjallar um þetta í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann bendir á hversu lítinn hluta launþegar fá í raun og veru í hendurnar af uppbótinni.
„Í „Lífskjarasamningnum“ svokallaða var ákveðið að desemberuppbót = lífskjarajólabónus launþega 2019 skyldi vera 92 þús. kr. Fyrir fyrirtæki kostar þessi uppbót um 113 þús. kr. á hvern starfsmann: 92 þús. + launatengd gjöld (lífeyrissjóður + stéttarfélagsgjald + orlofssjóður + sjúkrasjóður um 16,5%) og tryggingagjald 6,5% eða samtals 23% ofan á 92 þús. kr. = rúmlega 113 þús. kr.“
Páll segir að af þessum 92 þúsund krónum greiði starfsmenn í lægra skattþrepi 37 prósenta skatt, en þeir sem eru í hærra skattþrepi greiði 46 prósent. Þá borgi fólk 4 prósent í lífeyrissjóð og þeir sem eru með séreignarsjóð borgi 2 prósent til viðbótar.
„Segjum að meðaltali 43% sem þýðir að þeir fá útborgaðar rúmar 52 þús. kr. af þessum 92. þús. kr. Síðan ráðstafa starfsmenn þessum rúmu 52 þús. kr. til alls kyns útgjalda þar sem gera má ráð fyrir að meðalvirðisaukaskattur sé um 20% (matur, önnur heimilisútgjöld, fjárfestingar, rekstur bifreiðar, jóladrykkir o.fl.). Þá eru eftir tæplega 42 þús. kr. sem er það sem starfsmaðurinn fær í raun til eigin ráðstöfunar.“
Páll segir að mismunurinn af þessum 113 þúsund krónum sem fyrirtækin greiða mínus þessar 42 þúsund krónur sem starfsmaðurinn fær, samtals 71 þúsund krónur, fari í lífeyrissjóði, stéttarfélög, orlofs- og sjúkrasjóði (samtals um 21 þúsund) og svo til opinberra aðila; tekjuskatt, útsvar, tryggingagjald og virðisaukaskatt (samtals um 50 þúsund krónur).
„Niðurstaðan er sem sagt að fyrirtæki greiða 113 þús. kr. á starfsmann. Starfsmaðurinn fær af því um 42 þús. kr. eða rúm 37%. Lífeyris-, orlofs- og sjúkrasjóðir um 21 þús. eða tæp 19%. Opinberir aðilar um 50 þús. kr. eða rúm 44% af þeim 113 þús. kr. sem „lífskjara-jólabónusinn“ kostar fyrirtækin á hvern starfsmann! Ég sé ekki betur en að fyrirtæki landsins séu með þessum „lífskjara-jólabónus“ að senda sig sjálf og starfsmenn sína beint í Jólaköttinn ógurlega = opinberu gjaldahítina, þar sem hinn sjálfstæði, framsækni, vinstramegin-græni Jólaköttur liggur á meltunni og malar af gleði! Mér sýnist þetta ekki góð aðferð til að bæta kjör fólks, frekar en svo margt annað sem bírókratar búa til! Gleðilega hátíð og góðar stundir.“