Björgunarsveitir af Suðurlandi, ásamt lögreglu, hófu á ný í morgun leit að konu sem saknað er síðan á föstudag 20. desember síðastliðinn. Leitin hófst klukkan níu í morgun.
Leitað var fram á kvöld í gærkvöld og ákveðið að leita áfram í dag. Leitarsvæðið er strandlengjan frá Þorlákshöfn að Skaftá, en talið er að konan hafi fallið í sjóinn við Dyrhólaey á föstudag.
Í samtali við RÚV segir Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja á Vík, að yfir hundrað manns taki þátt í leitinni, þar af tuttugu frá Víkverja og lögreglumenn. Einnig tekur hann fram að notast er við aðstoð drónahópa frá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu enda sé leitarsvæðið stórt.
Leitað verður í dag fram til kl. 15 og mun þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoða við leitina.