Þetta kemur fram á vef Íslandsstofu í tilkynningu sem nefnist Jólagort 2019. Segir að samkvæmt úttekt greiningardeildar Íslandsstofu þá séu íslensku jólasveinarnir mun duglegri en starfsbræður þeirra í öðrum löndum. Þeir nái að setja gjafir í 45.500 skó á hverri nóttu á aðeins átta klukkustundum. Rétt er að hafa í huga að aðeins einn jólasveinn er að störfum á hverri nóttu svo þetta er ansi vel af sér vikið. Síðan má ekki gleyma að þeir þurfa einnig að bregða sér til útlanda að næturlagi til að setja í skó íslenskra barna sem búa utan landsteinanna. Það gerir afrek þeirra enn meira.
Jólasveinarnir ná því að gefa rúmlega 591.000 gjafir á þeim þrettán nóttum sem þeir eru að störfum í ár.
Greiningardeildin gerir ráð fyrir að um þrjú prósent barna séu óþekk og fái kartöflur í skóinn og njóti kartöflubændur góðs af því þar sem gefa þurfi þeim kartöflur í skóinn.
Greiningardeildin komst einnig að þeirri niðurstöðu að jólasveinarnir gefi gjafir fyrir 295 milljónir á þessu ári.