Fjölskyldu hafa verið dæmdar samtals átta milljónir í skaðabætur en foreldrarnir voru ranglega grunaðir um að hrista barn sitt (baby shaken syndrome) og var barnið um tíma vistað utan heimilis þeirra vegna þessara grunsemda.
Þegar farið var með níu mánaða son hjóna til læknis vegna veikinda og óhapps var hann talinn vera með einkenni sem gætu verið afleiðingar þess að hafa verið hristur. Var Barnavernd Reykjavíkur látin vita af grun um heilkenni ungbarnahristings. Þetta var þó engan veginn einhlítt mat lækna og síðar koma mat frá lækni sem taldi drenginn ekki hafa verið hristan með óeðlilegum hætti.
Tæpu ári eftir tilkynninguna hætti lögregla rannsókn málsins sem taldist ekki líklegt til sakfellingar.
Drengurinn var tekinn af heimilinu og vistaður á fósturheimili í fjóra mánuði.
Fjölskyldan höfðaði skaðabótarmál á Reykjavíkurborg á grundvelli þess skaða sem hún telur sig hafa orðið fyrir, meðal annars vegna aðskilnaðar frá barninu og þess mannorðsmissis sem málið hafði í för með sér.
Dómari taldi Barnaverndarnefnt bera ábygð á varanlegu tjóni sem fjölskyldan varð fyrir vegna málsins. Voru fjölskyldunni dæmdar samtals 8 milljónir í skaðabætur, þar sem 2 milljónir renna til móður, sama upphæð til föður, og börn hjónanna tvö, fá hvort um sig 2 milljónir.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.