Nemandi við Vallaskóla á Selfossi kveikti í þurrkustandi á salerni skólans í morgun. Þetta gerðist stuttu eftir að brunaæfing hafði verið haldin í skólanum.
DFS, Fréttavefur Suðurlands, greinir frá þessu.
Þar segir að æfingin Brunavarna Árnessýslu hafi gengið vel. Eftir æfinguna hafi komið annað brunaboð, öllum að óvörum, og kom þá í ljós að eldur hafði verið kveiktur á salerni skólans. Reykur barst fram á ganga og brugðust starfsmenn skjótt við og slökktu eldinn.
Í frétt DFS er vísað í tilkynningu til foreldra skólans þar sem segir að fulltrúar Brunavarna Árnessýslu, sem voru enn á staðnum, hafi getað gert viðeigandi ráðstafanir varðandi reykræstingu. Ekki var talin hætta á reykeitrun en í tilkynningunni segir að málið hafi verið kært til lögreglu.
Atvikið varð til þess að kennsla í skólanum var felld niður eftir hádegi hjá efsta stigi en skólahald verður með hefðbundnu sniði á morgun.