Lögreglan á Suðurnesjum hefur sektað hátt í hundrað ökumenn undanfarið í sérstöku átaki gegn hraðakstri. Í frétt á vefnum Suðurnes er því haldið fram að lögreglumenn beiti óhefðbundnum aðferðum við aksturseftirlit, fylgist með úr launsátri og fari um á ljóslausum bílum í náttmyrkri. Telur Suðurnes að nokkrar milljónir hafi streymt inn í hirslur embættisins við þetta átak.
Í fréttinni segir:
„Suðurnes.net hefur undanfarið fengið nokkrar ábendingar þess efnis að lögregla láti lítið á sér bera við eftirlitið, þannig hafa lögreglumenn við hraðaeftirlit á Reykjanesbraut slökkt öll ljós á lögreglubílum eftir að dimma tekur, lögreglubílum hefur verið lagt aftan við skilti við Njarðarbraut og við eftirlit á Faxabraut, þar sem á fimmta tug ökumanna var stöðvaður, var lögregla staðsett í innkeyrslu við íbúðarhús og í brekku þannig að ökumenn urðu þeirra ekki varir fyrr en þeir voru stöðvaðir.“
Lögreglan á Suðurnesjum svaraði ekki fyrirspurn miðilsins um þetta mál en samkvæmt verklagsreglum um hraðamælingar er ekkert því til fyrirstöðu að lögreglumenn mæli hraða bíla úr launsátri.