Köfunarþjónustan í samstarfi við Tryggingarmiðstöðina og lögregluyfirvöld hefur nú fjarlægt Gulltopp GK 2931 af botni Vogahafnar en báturinn brann og sökk í kjölfarið aðfararnótt 19. nóvember síðastliðinn. Gætt var fyllsta öryggis á staðnum á meðan verktíma stóð þar sem mikilvægt var að tryggja að ekki yrði neitt umhverfistjón af völdum olíu og annarra spilliefna, að sögn Helga Hinrikssonar verkefnastjóra hjá Köfunarþjónustunni. Báturinn er mjög brunninn eins og sést á myndum með þessari frétt. Verkefnið hefur fram til þessa gengið vel fyrir sig, nú mun tæknideild lögreglu skoða bátinn áður en honum verður fargað á viðeigandi hátt.
Gulltoppur GK 2931 var 70 brúttótonn og 21,5 metra langur og 4,69 metra breiður.