Guðmundur Steingrímsson, heimspekingur og fyrrverandi þingmaður, telur það orðið eitt einkenni samtíma okkar hvað fólk er orðið kokhraust með skoðanir sínar. Þetta kemur fram í pistli hans í Fréttablaðinu í dag þar sem hann viðrar hugmynd sína um nýja sjónvarpsþáttaröð.
Tilefni skrifa hans er nýyfirstaðinn borgarafundur RÚV um loftlagsmál þar sem blaðakonan Erna Ýr Öldudóttir afneitaði með eftirminnilegum hætti að loftslagshlýnun væri raunverulegt vandamál.
Sjá einnig: Þetta er það sem Erna Ýr sagði á fundinum í gær
„Samskiptin voru semsagt áhugaverð. Blaðamaður, Erna Ýr Öldudóttir, var kveðin í kút með þau sjónarmið sín að leiðigjarnt væri að sífellt væri verið að vitna í þröngan hóp vísindamanna um eðli loftslagshlýnunar, og að sjónarmiðin væru svo miklu fjölbreyttari. Þau eru það semsagt ekki.“
Guðmundur bendir á að þrátt fyrir að rökfærsla Ernu hafi verið heldur betur hrakin af málsmetandi manneskjum þá hafi samt sem áður verið um skemmtilegt sjónvarpsefni að ræða.
„Ég velti fyrir mér hvort ekki mætti spinna þennan þráð aðeins lengra og skapa frekara skemmtiefni fyrir áhorfendur. Sjáiði til: Eitt hressasta einkenni samtíma okkar er það hvað fólk er almennt orðið kokhraust með skoðanir sínar.“
Í dag veiti samfélagsmiðlar fólki vettvang til að reka sína eigin fjölmiðla og framboð upplýsinga sé mikið, bæði sannra og ósannra. „Allir geta slegið um sig. Þetta eru kjöraðstæður fyrir sjónvarpsþáttaröð. Hún gæti verið á laugardagskvöldum og heitið einfaldlega „Skoðanir og vísindi“.“
Í þáttunum, eins og Guðmundur sér þá fyrir sér, myndu vísindamenn rökræða við almenna einstaklinga með sterkar skoðanir á hinum og þessum málunum. Til dæmis gæti Kári Stefánsson hjá íslenskri erfðagreiningu rætt við fjárfesti sem hefði sínar efasemdir um að erfðaefni væri til. Eins gæti yfirlæknir bráðageðssviðs Landspítala talað um tilvist geðsjúkdóma við hönnuð sem teldi slíka sjúkdóma ekki til heldur annað nafn yfir aumingjaskap.
Í lokaþættinum kæmi svo sjálfur formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem myndi ræða við veðurfræðing.
„Sigmundur mun vitna í nýbirta grein sína í The Spectator um það hvernig lítil ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af bráðnun jökla og þess háttar. Um það séu til gagnmerkar heimildir, allt frá Ara fróða og uppúr, að veðrið hafi alla tíð verið alls konar á Íslandi. Stundum heitt, stundum kalt, stundum rok og stundum jafnvel skafrenningur. Þetta viti allir og lítil ástæða til að gera mikið veður út af því ef svo mætti segja.
Að því sögðu yrði botninn sleginn í þáttaröðina. Öllum til nokkurs fróðleiks og gamans“
Hvað segir þú lesandi góður, myndir þú horfa á slíka þáttaröð ?