Lögreglan á Suðurlandi gerir upp liðna viku með tilliti til umferðaróhappa og annarra tilvika tengdum akstri. Eins og áður kom fram í fréttum varð dauðaslys í Hornafirði þann 21. nóvember er ekið var á gangandi vegfaranda á þjóðvegi 1. Maðurinn, sem var aldraður, lét lífið, en málið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi.
Fjórtán önnur umferðaróhöpp urðu í umdæminu í vikunni en þau voru öll án alvarlegra meiðsla. Sjúkraflutningsmenn sem unnu á slysavettvangi undir Eyjafjöllum þann 19. nóvember þegar rúta fauk þar út af vegi slösuðust þegar vindhviða skellti þeim flötum á veginum. Þeir luku vinnu sinni á vettvangi en meiðslin eru ekki alvarleg. Lögreglumaður sem var utan við veginn fauk um 200 metra leið, en slasaðist ekki.
Vegfarandi um Skeiðarársand þann 20. nóvember tók upp myndskeið af ökumanni jepplings sem gerði sér að leik að aka í hringi utan vegar á sandinum. Myndskeiðið sendi hann lögreglu og reyndist unnt að ná á viðkomandi ökumann og yfirheyra um málsatvik. Sá lauk málinu með því að greiða 150 þúsund króna sekt fyrir brot sitt.