Brot 151 ökumanns var myndað á Hringbraut í Reykjavík frá miðvikudeginum 20. nóvember til föstudagsins 22. nóvember. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hringbraut í vesturátt, á gatnamótum við Njarðargötu.
Í frétt á vef lögreglunnar segir að á tveimur sólarhringum hafi 17.323 ökutæki farið þessa akstursleið. Því óku hlutfallslega mjög fáir ökumenn of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 73 kílómetrar á klukkustund en þarna er 60 kílómetra hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 87 kílómetra hraða, en samkvæmt sektarreikni á vef Samgöngustofu má sá hinn sami eiga von á 50 þúsund króna sekt.
Vöktun lögreglunnar á Hringbraut er liður í umferðareftirliti hennar á höfuðborgarsvæðinu.