fbpx
Miðvikudagur 02.júlí 2025
Fréttir

Líffræðihakk tröllríður heiminum: „Þetta er upphaf nýrrar byltingar“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 24. nóvember 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tölvuþrjótum sem brjótast inn í tölvur, eða „hakka“ þær, hefur farið fjölgandi undanfarin ár og þeir orðið fyrirferðarmeiri í almennri umræðu. Það er ekki það eina sem er hakkað í dag, því nú hefur fólk tekið upp á að brjótast inn eða „hakka“ sjálfa líffræðina. Hugtakið nefnist bio-hacking á ensku og DV veit ekki til að hugtakið hafi verið íslenskað, en lausleg þýðing myndi væntanlega vera líffræðihakk eða líffræðiinnbrot, eitthvað á þá leið.

En hvað felst í hugtakinu?

Bio-hacking er vítt hugtak og má nota um margt. Til að mynda getur það átt við um tiltekinn lífsstíl þar sem einstaklingar leitast við að lengja líf sitt eða bæta heilsu með meðvituðu fæðu- og lífsstílsvali. Kannski með því að hreyfa sig reglulega, neyta bætiefna, fasta og þar eftir götum.

Það getur þó einnig átt við öllu grófara inngrip í líffræði manneskjunnar. Það þekkist til dæmis að einstaklingar hafi sprautað sig með blóði úr yngri manneskju í von um að hægja á öldrun líkamans. Í grunninn er þetta viðleitni til að hafa áhrif á heilann og/eða líkamann til að hámarka eða auka getu umfram það sem hefðbundin læknavísindi bjóða upp á. Jafnvel getur það falist í því að menn vilja vélvæða líkama sinn.

Staðreyndin í dag er að einstaklingar, af forvitni, óþolinmæði eða vantrausti gagnvart læknavísindunum, eru farnir að framkvæma genatilraunir og fikta í erfðaefni og líffræði utan sjúkrahúsa, tilraunastofa og jafnvel án nokkurs grunns í líf- eða efnafræði.

BBC ræddi í mars 2018 við konu sem hefur grætt segla í fingur sér. Með þeim getur hún skynjað rafsegulsvið og vitað hvort kveikt eða slökkt sé á tækjum. Hún hefur einnig grætt rafflögu undir húð sína sem hún getur notað til að framkvæma aðgerðir á síma sínum og aflæsa hurðum.

Ónáttúrulegt val

Bio-hacking er viðfangsefnið í nýlegum heimildaþáttum sem birtust á efnisveitunni Netflix og nefnast Unnatural Selection eða á íslensku ónáttúruval.  Í þáttunum er litið til nokkurra birtingarmynda hugtaksins „líffræðihakk“, og litið inn í hugarheim þeirra sem það stunda eða þeirra sem vonast til að græða á slíku inngripi í líffræðina.

Um árþúsundamótin tókst vísindamönnum að kortleggja erfðaefni mannverunnar. Í dag er þekkingin á erfðaefni orðin svo mikil að það er hægt að ganga lengra en bara að skoða það, það er hægt að breyta því.

Annar af kvikmyndagerðarmönnunum á bak við þættina, Joe Egender, fékk hugmyndina að þáttunum þegar hann var að kynna sér heimildir fyrir handrit að vísindaskáldsögu. Þegar hann komst að því að erfðaefni væri hægt að breyta varð hann agndofa. „Ég trúði þessu ekki, að við gætum í alvöru breytt kjarna lífsins, erfðaefninu. Þetta er upphaf nýrrar byltingar,“ sagði Egender í samtali við The Guardian.

Í þáttunum er rætt við Tristan Roberts, sem er með HIV-veiruna. Hann sprautar sig í tilraunagenameðferð sem hann vonar að lækni hann. Einnig er rætt við David Ishee, hundaræktanda með enga menntun í erfðafræði, sem fiktar í erfðaefni hunda og vonast til að verða fyrstur til að rækta hunda sem lýsa í myrkri. Átakanlegastur í þáttunum er þó án efa litli Jackson Kennedy, drengur með sjaldgæfan erfðagalla sem er að gera hann blindan. Foreldrar hans fréttu af genameðferð sem gæti læknað Jack, sem dreymir um að verða geimfari. Hins vegar standa þau í baráttu við tryggingafélag sitt til að fá meðferðina niðurgreidda.

Menntun og búnaður í gegnum internetið

Þeir sem vilja hakka líffræðina eru að leita eftir betra lífi, betra ástandi, lækningu eða jafnvel bara til að svala forvitni á borð við: geta hundar lýst í myrkri,  eða get ég sigrast á öldrun líkamans?

Á internetinu er flest falt og hafa margir sem vilja gera minniháttar eða róttækar tilraunir með erfðaefni sitt eða annarra, hreinlega pantað allt sem til þarf, jafnvel í tilbúnum pakkningum, heimsent með leiðbeiningum.

Sumir líta á sig sem eins konar hvunndagshetjur. Þarna taka þeir skref framhjá flóknum leyfisferlum, flóknum reglum um viðeigandi ferla og skjalavinnu til að tækla strax vandamál sem þeir telja sig geta leyst. Lyfjafyrirtæki eru flest hagnaðardrifin, og í löndum þar sem heilbrigðisþjónusta er kostnaðarsöm þá er aðeins á færi þeirra efnameiri að leyfa sér nýjar og framsýnar meðferðir. Í Bandaríkjunum er talið að það taki um 10 ár fyrir nýtt lyf að komast á almenna sölu á markaði, og fyrir veikt fólk er sú bið oft banvæn. Þetta getur skapað vissa óþolinmæði og vantraust á læknavísindunum.

Erfðaefnið hakkað

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld, söng söngflokkurinn Icy árið 1986 og verður sú lína ekki of oft kveðin í því samfélagi sem við búum í í dag. Gífurlegar tækniframfarir eiga sér stað á ári hverju og getur verið erfitt að fylgjast með þeim öllum. Erfðaefni mannsins hefur verið kortlagt og sýnt fram á að hægt sé að eiga við það. Manneskjan er komin með getuna til að endurrita erfðaefnið, það er staðreynd. En er það siðferðislega forsvaranlegt? Í tilfelli Jacks litla þá væri svarið án efa já, en ef ætlunin er, líkt og hjá mörgum líffræðihökkurum, að framlengja lífið, hægja á öldrun, velja börnum okkar erfðafræðilega eiginleika, erum við þá komin á hálari ís?

Það mætti segja að það væri form af líffræðihakki þegar kona fer í fósturskimun þar sem leitað er eftir litningagöllum fósturs, þótt þar sé farið eftir löglegum ferlum, en löngum hefur verið deilt um hvort það sé siðferðislega forsvaranlegt eða ekki.

Líffræðihakk er ekki án áhættu, sérstaklega þegar leikmenn gera tilraunir á sjálfum sér í bílskúrnum heima hjá sér. Líffræðihakkarar vonast til að bæta mannkynið, jafnvel finna lækningu við hættulegum sjúkdómum sem verði hægt að bjóða fólki upp á án þess að það þurfi að eiga við hagnaðardrifna lyfjarisa. En hafa má í huga að ástæða þess að ströngum öryggisferlum varðandi ný lyf, meðferðir og tilraunir, er að jafnaði fylgt er sú að tryggja öryggi almennings. Þeir sem gera tilraunir á sjálfum sér bjóða því hættunni heim, en hvort það muni hafa erindi sem erfiði, það er önnur spurning.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sverrir um ungu tæknitrúðana sem hanna gervigreind – „Þeir tala raunar eins og það sé þeim bókstaflega lífsspursmál að tortíma störfum fólks“

Sverrir um ungu tæknitrúðana sem hanna gervigreind – „Þeir tala raunar eins og það sé þeim bókstaflega lífsspursmál að tortíma störfum fólks“
Fréttir
Í gær

Telja að Trump dragi sig í hlé sem sáttasemjari á milli Rússlands og Úkraínu

Telja að Trump dragi sig í hlé sem sáttasemjari á milli Rússlands og Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hraunað yfir Gunnar Smára og allt á suðupunkti hjá sósíalistum – „Þetta er svo vitlaust að það er bara hlægilegt“

Hraunað yfir Gunnar Smára og allt á suðupunkti hjá sósíalistum – „Þetta er svo vitlaust að það er bara hlægilegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona sem flýði blokkina í Írabakka eftir ónæði í sjö ár – „Ég kvartaði næstum daglega í Félagsbústaði“

Kona sem flýði blokkina í Írabakka eftir ónæði í sjö ár – „Ég kvartaði næstum daglega í Félagsbústaði“