Maður að nafni Asgeir Ulfr var dæmdur í fyrrasumar fyrir hrottalegt morð á fyrrverandi herbergisfélaga sínum, Christinu Scarr, í Flórídafylki. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar var Ulfr í gríðarlegu uppnámi vegna þess að Scarr neitaði honum um stefnumót og átti kærasta fyrir.
Upprunalegt nafn árásarmannsins er Michael Paul Lobianco en hann breytti því í Asgeir Ulfr, sem er einfaldlega borið fram „Ásgeir Úlfur,“ en hann er ættaður frá Bandaríkjunum. Kemur fram í skýrslu lögreglu að hann hafi skipt um nafn til að losa sig við tengsl við föður sinn, sem hann var sagður hata, og vegna áhuga hans á norrænni goðafræði. Fornafnið merkir einfaldlega „Vopn goðanna.“
Ulfr játaði að lokum sök í málinu og sagði að dauði konunnar hefði verið slys og hefði hann aðeins ætlað að hræða hana. Áform hans byggðust á því að sviðsetja innbrot á heimili Scarr í dulargervi og hann myndi sjálfur hringja á neyðarlínuna þegar að því kæmi. Því faldi hann sig í skáp og beið þess að hún kæmi heim. Það gerði hún og með henni í för var nýr kærasti hennar og greip Ulfr til þess ráðs að fela sig í skápnum alla nóttina. Næsta dag, þegar kærasti Scarr yfirgaf heimilið, stökk Ulfr úr skápnum og réðst á Scarr.
Í tilkynningu kemur fram að Ulfr hafi barið Scarr ítrekað, kyrkt hana til dauða og bundið hana upp. Þegar upp komst um sviðsetningu innrásarinnar fór ríkissaksóknari fram á dauðarefsingu. Til að mynda náðist Ulfr á upptöku í Wal-Mart verslun þar sem hann keypti límband og ýmsa fjötra sem fundust síðar á vettvangi.
Fyrirtaka í máli Ásgeirs fer fram nú í desember.