Þann 31. október slasaðist ferðamaður við Seljalandsfoss þegar klakastykki hrundi á hann úr berginu við fossinn. Maðurinn mun hafa farið inn fyrir lokun sem búið var að setja upp vegna hættu sem verður þegar ís safnast við fossinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu um verkefni Lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Töluvert var um slys í umdæminu í síðustu viku. Þar á meðal þetta: Ferðamaður slasaðist á baki þegar bílhurð sem hann opnaði fauk á hann og kastað honum til þannig að hann féll á grjót skammt frá. Atvikið varð þann 3. nóvember á bílastæði við Dyrhólaey og var viðkomandi fluttur á slysadeild með sjúkrabíl þaðan.
Einn slasaðist við fall á göngu utandyra á Selfossi þann 1. nóvember og hlaut sá skurð á höfði.
Maður slasaðist þegar skot hljóp úr byssu hans og fór í fót hans. Töluverðir áverkar urðu af skotinu og var maðurinn fluttur í þyrlu á sjúkrahús.
Fjölmörg umferðaróhöpp urðu í liðinni viku í umdæminu. Sjá nánar hér.