„Það er ekki hægt að skauta yfir það sem er manni til minnkunar,“ segir Halldór Einarsson – Dóri í Henson – í nýútgefinni ævisögu sinni sem Magnús Guðmundsson ritar og Veröld gefur út. Magnús komst með neikvæðum hætti í fréttirnar árið 2017 er í ljós kom að hann hefði ásamt tveimur öðrum mönnum skrifað undir meðmælabréf til handa Robert Downey í því skyni að hann fengi uppreist æru.
Lögmaðurinn Robert Downey var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum. Eftir að hann hafði afplánað dóm sinn fékk hann uppreist æru sem þýðir meðal annars að hann gat farið að sinna lögmannsstörfum að nýju og var kominn með óflekkað mannorð.
Halldór var gagnrýndur harðlega fyrir tveimur árum fyrir stuðning sinn við Robert og hvatt var til að íþróttafélög hættu viðskiptum við fyrirtæki hans, Henson.
Halldór segir að kynni sín af Robert hafi í raun verið takmörkuð og staðið yfir í stuttan tíma (Ath. Robert Downey hér áður Róbert Árni Hreiðarsson):
„Við lékum saman fótbolta í skamman tíma í Val en þar sem hann er ári eldri og ég dvaldi framan af sumarlangt í Vestmannaeyjum var þetta takmarkaður tími. En tengingin var til staðar og það fór því ekki fram hjá mér frekar en öðrum þegar fjölmiðlar hófu að fjalla um brot Róberts Árna gegn unglingsstúlkum. Allt var þetta ákaflega sorglegt og í raun ömurlegt.“
Halldór lýsir síðan atvikinu er hann skrifaði undir meðmælabréfið:
„Einhverju sinni mætti Róbert Árni á skrifstofuna til mín eftir að hann var búinn að afplána dóminn sem hann hlaut. Hann var búinn að draga upp texta þar sem hann óskar eftir uppreist æru og biður mig að vera einn þriggja til að skrifa upp á plaggið. Í textanum kemur fram að ég, Halldór Einarsson, geti staðfest að Róbert Árni Hreiðarsson hafi hagað sér vel frá því hann lauk afplánun dóms sem hann hlaut í héraðsdómi. Hverjum datt í hug þessi vitleysa, hver er þess umkominn að votta hvernig þessi eða hinn hagar sér öllum stundum?“
Halldór segist hafa gert athugasemd við texta bréfsins en síðan skrifað undir – sem hann sér mjög eftir:
„Hefði ég lesið dóminn eða yfirhöfuð vitað eitthvað um þetta ömurlega mál, hefði samviska mín alls ekki boðið mér að tengjast því með neinum hætti. En ég gerði þessi miklu mistök og þar við situr og ég ber einn ábyrgð á gjörðum mínum.“
Halldór lýsir síðan samskiptum sínum við föður einnar stúlkunnar og þær allar:
„Í viðleitni minni til þess að bæta fyrir það sem ég hafði gert, setti ég mig í samband við Berg Þór Ingólfsson, föður einnar stúlkunnar og þann mann sem fór fyrir þeim sem mest og best börðust gegn því óréttlæti sem kynferðisglæpir eru. Í framhaldi af því hitti ég Berg og stúlkurnar sem í hlut áttu og við ræddum þetta mál. Á þeim fundi báðu stúlkurnar mig um að draga undirskrift mína til baka. Ég fór við fyrsta tækifæri niður í dómsmálaráðuneyti og ræddi þar við lögfræðing sem sagði mér að engu væri hægt að breyta og við það sat.
Vonandi munum við sem samfélag einbeita okkur í framtíðinni að því að styðja þolendur í slíkum málum með ráðum og dáð. Mitt klúður stendur og ég biðst afsökunar á því.“