Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um þjófnað úr bifreið við Bláa lónið í gær. Í skeyti frá lögreglunni kemur fram að tilkynningin hafi borist frá erlendum ferðamanni sem sagði Samsung síma, tvö sett af airpods og peningum hafa verið stolið úr bifreiðinni meðan viðkomandi var í lóninu.
Sá sem fyrir þessu varð taldi verðmæti munanna nema um 150 þúsund krónum.
Þá segir lögreglan á Suðurnesjum að hún hafi stöðvað 128 bifreiðar í gærdag við gömlu steypustöðina í Njarðvík. Um var að ræða hefðbundið eftirlit. Voru ökumenn beðnir um að blása í áfengismæli og réttindi þeirra athuguð. Er skemmst frá því að segja að allir voru með sitt á hreinu, að einum undanskildum sem var ekki í öryggisbelti. Á síðustu dögum hafa tugir ökumanna verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu og fáeinir verið teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur.