Bílvelta varð á Tálknafirði, móts við Gileyri, síðastliðinn mánudag. Í skeyti sem lögreglan á Vestfjörðum birti á Facebook-síðu sinni kemur fram að þegar lögregla kom á vettvang hafi bifreiðin legið á hliðinni og verið alelda.
Ökumaður og farþegi höfðu komist út úr bifreiðinni með aðstoð vegfarenda. Slökkvilið kom á staðinn skömmu síðar og slökkti eldinn. Ökumaðurinn sagðist hafa misst stjórn á ökutækinu sökum hálku. Mönnunum var ekið til Tálknafjarðar þar sem þeir hlutu andlega aðhlynningu en meiðsl urðu engin.
Þá varð tjón á þremur bifreiðum við grjóthrun norðan við Arnarneshamar á þriðjudag. Bæði á hjólbörðum og í einu tilfelli skemmtist undirvagn. Engin slys urðu á fólki en þarna hafði grjót fallið úr hlíðinni á veginn. Skuggsýnt var þegar atvikið átti sér stað og ökumenn sáu ekki grjótið í tæka tíð.
Loks handtók lögreglan á Vestfjörðum mann á þriðjudag þegar hann hafði sótt pakkasendingu á Bíldudalsflugvöll, er hafði komið með flugi frá Reykjavík. Grunur lögreglunnar um að fíkniefni væru í pakkanum reyndist á rökum reistur þegar hann var opnaður. Í honum reyndust vera um 30 grömm af kannabisefnum. Í tengslum við rannsókn málsins framkvæmdi lögreglan húsleit á heimili mannsins í Vesturbyggð. Eigandi pakkans var yfirheyrður og sleppt að henni lokinni.